Viðskipti innlent

Guð­laug færir sig frá Flug­freyju­fé­laginu til Icelandair

Magnús Jochum Pálsson skrifar
visir-img

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður FFÍ, hefur óskað eftir lausn frá störfum sem formaður félagsins. Hún greindi frá þessu í færslu á lokuðum Facebook-hópi flugfreyja. Ástæðan að baki ákvörðuninni er að hún tekur við störfum sem deildarstjóri launadeildar Icelandair í september.

Guðlaug tók við formennsku Flugfreyjufélags Íslands í júní 2021 en hafði áður verið starfandi formaður þess. Hún var meðal annars starfandi formaður í gegnum verkföll flugfreyja árið 2020 sem fylgdu í kjölfar fjöldauppsagna Icelandair.

Í færslunni sem hún birti þakkaði hún fyrir gott samstarf og sagðist ganga stolt frá borði enda hafi hún ásamt öðrum félagsmönnum náð árangri í ýmsum málum. Þá sagðist hún ganga stolt frá borði og óskaði félaginu og félagsmönnum þess velfarnaðar í starfi.

Aðspurð að ástæðunni að baki ákvörðuninni sagðist Guðlaug vera að hefja störf sem deildarstjóri launadeildar hjá Icelandair og því hafi hún óskað eftir lausn frá störfum hjá félaginu.

Hér fyrir neðan má lesa tilkynninguna sem hún birti á Facebook-hópnum:

„Kæru félagsmenn

Í ljósi þess að ég hef óskað eftir lausn frá störfum sem formaður langar mig að nota tækifærið og þakka ykkur hjartanlega fyrir gott samstarf á undanförnum árum. Þessi tími hefur verið annasamur og litríkur og er ég þakklát fyrir þau tengsl sem ég hef myndað við ykkur. Ég mun ganga stolt frá borði frá störfum mínum fyrir FFÍ, saman höfum við náð árangri í ýmsum málum og óska ég félaginu og ykkur öllum velfarnaðar í starfi.“


Tengdar fréttir

Reynslumiklu flugfreyjurnar lögðu Icelandair

Icelandair bar að fara eftir starfsaldri þegar félagið afturkallaði uppsagnir flugfreyja og flugþjóna rúmum þremur mánuðum eftir að fólkinu hafði verið sagt upp í apríl 2020.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×