Skoðun

Ein ákvörðun sem getur breytt lífi þínu til frambúðar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar

Búddistar segja að lífið sé þjáning. Að við séum föst í ákveðnu karmahjóli. Ég get alveg tekið undir það að einhverju leyti en það er bara spurning um hvort við ætlum að hafa það viðhorf í gegnum lífið eða ekki. Er það viðhorf eitthvað sem þjónar okkur til hins betra og gerir líf okkar gott? Eða er það óheilbrigt viðhorf?

Það sem drepur mann ekki, gerir mann sterkari segja sumir. Og ég get alveg sagt að ég sé sammála því að mörgu leyti.

Hefur þú pælt í því hversu mikið einungis ein ákvörðun sem þú tekur í dag getur haft það mikil gríðarleg áhrif á líf þitt og breytt því til frambúðar til góðs eða ills á einu augnabliki? Hvort sem það er eitthvað sem þú bara ,,segir” eða ,,gerir”? Eða á hinn pólinn: ,,segir ekki” og ,,gerir ekki”?

Ekki bara þínu lífi jafnvel, heldur ein ákvörðun sem getur haft áhrif á milljónir manna og breytt framgangi lífsins á jörðinni til frambúðar?

Ég heyrði að móðir Adolf Hitlers hefði ætlað í fóstureyðingu þegar hún gekk með hann en hætti við á síðustu stundu. Hvernig væri lífið á jörðinni ef hún hefði farið í fóstureyðingu? Maður spyr sig. Hefði eitthvað verra komið í staðinn? Eitthvað betra? Ég veit það ekki.

Á persónulegum nótum þá tökum við ákvarðanir á hverjum degi. Ég hef tekið ákvarðanir í gegnum lífið sem hafa haft gífurleg áhrif á mitt líf sem heild. Valdið missi, sárindum, sársauka, eftirsjá, sjálfshatri, sorg og svo lengi gæti ég talið. En þær hafa líka gefið mér ást, hamingju, gleði, trú, heilun, styrk, kraft, hugrekki og svo lengi gæti ég talið. Þessar ákvarðanir voru teknar í mismunandi vitundar ástandi, meðvitað og ómeðvitað að hluta.

En maður getur ekki og á ekki að láta fortíð sína segja sér hver maður er í dag. Ef einhver er látin gjalda oftar en einu sinni fyrir mistök sín í fortíðinni þá kallast það óréttlæti og engin manneskja vill upplifa það óréttlæti né er það réttmætt eða siðferðilega rétt.

Þannig alls ekki berja þig niður fyrir fortíðina, þú getur ekki breytt henni, lærðu af henni. Æðruleysisbænin er líklegasta besta bænin til að hjálpa manni með þetta og gefa manni þá visku til að sleppa taki á fortíðinni.

Eftir því sem ég hef orðið meira meðvitaðri um mínar ákvarðanir og gjörðir hefur líf mitt orðið betra hægt og rólega þó ég taki ennþá stundum rangar ákvarðanir.

Mig langaði að skrifa um þetta vegna þess að ég hef komið auga á hinar gífurlegu afleiðingar einnar ákvörðunar til hins betra eða verra eins og sagan um móðir Hitlers bendir réttilega á og ég vildi deila þeirri þekkingu til annarra og það hefur gefið mér meiri stjórn á eigin lífi þó ófullkomið sé að mörgu leyti.

Að verða meðvitaður um þetta getur gefið manni þann mátt að skapa sér það líf sem maður raunverulega vill. Ef maður er meðvitaður um þetta þá verður líf manns ekki eins og að kasta upp tening og sjá hvað kemur upp. Þá verður líf manns ekki eins mikið spurningamerki eða óvissa.

Búddistar kalla þetta meðal annars að vera ,,vakandi” þó hugtakið ,,vakandi” hafi fleiri en eina merkingu fyrir þeim. Það væri líka hægt að kalla þetta að vera árvökull, að vera fókusaður, að vera með athygli á lífi sínu. Að hugsa vel áður en maður framkvæmir.

Fortíðin:

Hvað ef ég hefði sagt nei í staðinn fyrir já?

Hvað ef ég hefði reynt meira?

Hvað ef ég hefði ekki gefist upp?

Hvað ef ég hefði sagt fullan hug minn?

Hvað ef ég hefði sagt fyrirgefðu og tekið ábyrgð á mínum hlut?

Hvað ef ég hefði farið til vinstri en ekki hægri?

Hvað ef ég hefði ekki látið álit annarra stjórna ákvörðunum mínum?

Hvað ef ég hefði bara ekki svarað og gengið í burtu?

Hvað ef ég hefði hlustað meira á sjálfan mig og gengið eftir því sem ég raunverulega vildi?

Hvað ef ég hefði látið hjartað ráða för og hlustað á sjálfan mig frekar en aðra?

Hvað ef ég hefði verið meira heiðarlegur við sjálfan mig og aðra?

Hvað ef ég hefði náð að sjá sjónarhorn hinnar manneskjunnar i staðinn fyrir bara mína í mannlegum samskiptum og virkilega hlustað?

Hvað ef ég hefði haft nógu mikið hugrekki og gengið eftir því sem ég raunverulega vildi?

Hvernig væri líf mitt þá?

Það er hægt að spyrja sig endalausar spurningar um ,,fortíðina” og ákvarðanir sem maður tók úr henni sem hafa mótað líf manns.

En ,,Ef” leikurinn er bara mannskemmandi þegar allt kemur til alls því fortíðinni getur maður ekki breytt.

Að sleppa tökum á útgáfum úr fortíðinni af þér sem endurspegla þig ekki lengur er ein sú besta gjöf sem þú getur gefið sjálfum þér. Í staðinn fyrir að halda föstum tökum á því sem þú ,,hefðir getað gert” í fortíðinni, þá getur þú tekið meðvitaða ákvörðun um það sem þú getur gert ,,núna” og með því skapað þér betri framtíð. Það líf sem þú átt skilið, það líf sem þú raunverulega vilt.

Allavega, þá er þetta eitthvað sem ég hef meiri stjórn á í dag og hef þá þekkingu sem betur fer að gera líf mitt betra en það hefur verið í fortíðinni.

Sumir munu skilja nákvæmlega hvað ég á við með þessum pistli sem er skrifaður til umhugsunar og sjálfshjálpar fyrir fólk. Aðrir munu ekkert botna í honum en hann mun rata sína leið til þeirra sem eiga að taka hann til sín.

Að taka ábyrgð á eigin lífi og vera meðvitaður um hve ein ákvörðun getur umbreytt lífi þínu til annaðhvort góðs eða verra. Ein röng ákvörðun getur eyðilagt sambönd, starfsferil eða eitthvað svo miklu verra og valdið miklum sársauka.

Orsök og afleiðing. Hvaða ákvarðanir mun ég taka í dag og hvaða áhrif munu þær hafa áhrif á líf mitt og tilvist mína í núinu og framtíðinni? Ætla ég að vera meðvitaður? Vera sjálfum mér trúr og hugsa vel og vandlega áður en ég tek ákvarðanir í lífinu? Ætla ég að taka ábyrgð á mínum eigin sársauka úr fortíðinni í stað þess að varpa honum á aðra eins og fórnarlamb?

Ætla ég að gerast meistari míns eigin lífs og verða sú besta útgáfa af sjálfum mér og hugsast getur? Taka ábyrgð á sjálfum mér?

Ég vona að sú ákvörðun mín um að skrifa um þetta efni og birta það hafi fleiri jákvæðar afleiðingar heldur en neikvæðar og muni gagnast einhverjum. Þá er tilganginum náð.

Góðar stundir.

Höfundur er eilífðarstúdent.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×