Heimir byrjaði þáttinn á að nefna hvernig sumt fólk væri ruglað í ríminu yfir ýmsum hugtökum nú til dags, hugtökum á borð við trans fólk, hán og leghafa. Í kjölfarið spurði hann Sigmund hvort pólitíkin væri of sein að bregðast við málum samfélagsins.
Sigmundur sagði þá að á Íslandi færi of mikill tími og orka í að rífast um aukaatriði en þegar kæmi að stórum grundvallarbreytingum þá sé ekkert talað um þær. Núverandi ríkisstjórn hafi til dæmis oft sett lög sem hefðu átt að kallað á miklu meiri umræðu.
Helga Vala gat ekki tekið undir að stjórnmálin væru best til þess fallin að taka frumkvæði þegar kæmi að grundvallar hugmyndabreytingum er vörðuðu mannréttindi.
Hún sagði að löggjafinn væri í eðli sínu íhaldssamur og að það væri hinn baráttuglaði aktívismi sem ætti að ryðja brautina. Stjórnmálin ættu að vera meðvituð um alla samfélagsþróun en ekki endilega að vera þeir sem ýti henni úr vör af því þá gætu blandast inn í það alls konar aðrir hvatar.
Stærsti vandi stjórnmála eða eðlilegt gagnsæi
Sigmundur svaraði þá að Helga Vala kæmi þarna inn á það sem hann teldi vera einn helsta vanda stjórnmálanna, að stjórnmálamennirnir væru stöðugt að gefa frá sér vald.
„Helga Vala lýsir því að þetta sé bara jákvætt, að einhverjir utanaðkomandi leiði stjórnmálin áfram. En þá erum við ekki með lýðræði. Þá getur almenningur ekki ráðið því hvernig landinu er stjórnað,“ sagði Sigmundur.
Þá skaut Heimir sér inni og spurði hvað Sigmundur væri að vitna í.
Sigmundur svaraði þá að það mætti vísa í mörg mál en það sæist til dæmis á málum ríkisstjórnarinnar þar sem aktívistum á ákveðnum sviðum væri falið að skrifa frumvörp. Sumir ráðherrar gerðu sér þess vegna oft ekki grein fyrir því hvað ríkisstjórnin væri að leggja fram á ákveðnum sviðum.
„Það hefur engin framþróun orðið í réttindabaráttu nema vegna aktívisma réttindabaráttu fólks,“ sagði Helga Vala þá.
Hún sagði að skref í þágu aukinna réttinda fyrir fólk hafi aldrei verið tekin að frumkvæði stjórnmálanna heldur „að frumkvæði þeirra sem söfnuðu saman fólki til að berjast fyrir þeim réttindum sem náðu svo hljómgrunni hjá meirihlutanum þannig að það smitaðist inn í stjórnmálin.“
Enn fremur sagði hún að kjörnir fulltrúar væru málsvarar kjósenda sem færðu þeim völdin. Það væri eðlilegt að þingmenn fylgdust með samfélagsþróun og mætu hana út frá sínum grunngildum. Því skipti máli að þingið sé meðvitað um samfélagsþróunina.
Fólk ruglað í ríminu yfir nýjum hugtökum
Þá kom Heimir aftur að upphafinu, ýmsum nýjum hugtökum á borð við trans fólk, leghafa og hán sem fólk væri svolítið ruglað í ríminu yfir. Sem brú yfir í þá umræðu byrjaði Heimir á að spyrja hvers vegna Sigmundur hafi spurt forsætisráðuneytið um skilgreininguna á orðinu kona.
Sigmundur svaraði að það væri vegna þess að skilgreining orðsins virtist vera á reiki í umræðunni og að það skipti máli hvernig ríkisstjórnin skilgreindi þetta af því það hefði áhrif á lögin og framkvæmd þeirra.
Þá sagði Sigmundur að réttindi kvenna væri eitthvað sem hefði náðst á löngum tíma og þau þyrfti að verja. Hann tók sem dæmi JK Rowling, höfund bókanna um Harry Potter, sem hann sagði hafa lent í miklu aðkasti vegna skoðana sinna á trans fólki og skilgreiningu á orðinu kona.
Helga Vala tók undir með Sigmundi um að umræðan væri svo sannarleg þörf og það væri mikilvægt að ræða þetta í þaula.
Hún sagði að það þyrfti að fjalla um „þessa stöðu hinsegin og kynsegin fólks af því að við þurfum að fræða og við þurfum bara að standa saman í því, bæði við stjórnmálafólk og og fjölmiðlafólk. Af því það er einmitt með fræðslunni sem við útrýmum fordómum eða alla vega minnkum þá.“
Varðandi skilgreininguna á orðinu kona taldi Helga Vala það vera alveg ljóst að það væri mannvera sem skilgreindi sig sem konu. Síðan væru aðrir sem vildu ekki skilgreina sig sem konur og vildu því vera ávarpaðir öðruvísi. Það væri einstaklingsins að ákveða.
Örar breytingar á samfélaginu
Þá spurði Heimir hvort Helga Vala væri sammála því að breytingarnar í þessum efnum hefðu verið örar og miklar. Hún tók undir það og sagði að þess vegna gæti verið erfitt fyrir miðaldra og eldra fólk að skilja hlutina. Henni sýndist þó yngra fólk vera meðvitaðra um þessi mál.
Fyrir hennar parta skipti það engu máli í stóru myndinni hvernig fólk skilgreind sig.
Sigmundur svaraði þá að það mætti ekki líta hjá því að kynin tvö hefðu ákveðna þýðingu í lögum og þar með í samfélaginu. Ef maður ætlaði að víkja frá líffræðilegum kynjum þyrfti maður að huga að lagalegum áhrifum þess.
Síðan velti Sigmundur upp mögulegum áhrifum sem þessar breytingar gætu haft á mál á borð við íþróttir kvenna, sundlaugar og fangelsi. Af því tilefni rifjaði hann upp sögu sem hann heyrði af stúlku sem hafði lent í aðkasti og ofbeldi vegna skoðana sinna á líffræðilegum kynjum.
Helga Vala svaraði þá að það væri auðvitað ekkert sem réttlætti ofbeldi og minntist á að fyrir stuttu hefðu tveir verið drepnir í Osló af manni sem fyrirliti hinsegin fólk. Hún sagði að hatrið væri víða og til að koma í veg fyrir það þyrfti að fræða fólk og kenna því umburðarlyndi.
Íslenskan að breytast
Næst kom Heimir að breytingum á íslenskunni, nú væru stofnanir og fyrirtæki farin að reyna að gera texta sína kynhlutlausari. Hann spurði þau því hvort þetta væri æskilegt eða hvort þetta hefði óæskileg áhrif.
Sigmundur sagði þetta sígilda afleiðingu öfga sem leiði út í allt, meðal annars út í málið. Fólk sé farið viljandi að tala rangt mál til að reyna að sanna sig sem liðsmenn í einhverri öfgahreyfingu.
Helga Vala gat ekki tekið undir það og sagðist alveg skilja að fólki fyndist erfitt að sjá hvernig tungumálið væri að breytast. Aftur á móti væru þetta sjálfsagðar breytingar fyrir fullt af fólki, til dæmis konur sem hafa lengi verið kallaðar menn.
Hún gat þó tekið undir að hún sypi hveljur þegar hún sæi „alls konar ambögur“ á íslensku máli í fjölmiðlum enda væri löngu búið að henda öllum prófarkalesurum út úr ritstjórnum blaða og miðla.
Sigmundur taldi þessar breytingar þó ekki vera lausn á neinum vandamálum heldur þvert á móti sköpuðu þær ný vandamál. Öfgahreyfingar þyrftu að skapa sér ný vandamál til að réttlæta baráttuna fyrir baráttumönnunum. Hann taldi þetta vera allt komið út í eitthvert rugl.
„Þegar maður er í þeirri stöðu að heimurinn er mikið til miðaður út frá hans kyni eða manns veruleika hefur maður minni áhyggjur af svona hlutum heldur en þeir sem eru viðvarandi minnihlutahópur,“ svaraði Helga Vala þá.
Skortur á umburðarlyndi
Þá nefndi Heimir að það gæti enginn haft jaðarskoðanir án þess að eiga yfir höfði sér árásir og spurði hvað væri hægt að gera í þessu.
„Við bregðumst við því með fræðslu, með því að ræða vel og ítarlega um hlutina, með því að forsmá ekki minnihlutahópa, með því að reyna að minnka hatrið á báða bóga,“ svaraði Helga Vala
Hún sagði að það væri nauðsynlegt af því pólarísering væri að ágerast mjög mikið um allan heim og það væri mjög skaðlegt fyrir samfélagið.
Hún taldi sömuleiðis að samfélagsbreytingar hafi spilað stóra rullu í þessum breytingum og þar hafi samfélagsmiðlar og fjölmiðlar mikil áhrif.
„Skortur á umburðarlyndi er verulegt áhyggjuefni en oft á tíðum eru það þeir sem tala mest um umburðarlyndi sem eru gagnrýnastir og árásargjarnastir gagnvart öðrum og telja sig hafa mestan rétt til þess,“ sagði Sigmundur þá.
Hann taldi vandamálið felast í skorti á klassísku frjálslyndi og lausnin lægi þar. Kjarninn í frjálslyndinu væri málfrelsi og það þyrfti að leyfa fólki að hafa málfrelsi og rökræða hlutina án þess að ræðist væri á það.