Erlent

Fékk óvart greidd 300 sinnum hærri laun og flúði

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Kjötiðnaðarmaður verkar skrokk á dýri. Mynd tengist frétt ekki beint.
Kjötiðnaðarmaður verkar skrokk á dýri. Mynd tengist frétt ekki beint. Getty/Michael Cortina

Chíleskur maður fékk í síðasta mánuði útgreidd mánaðarlaun sem voru 300 sinnum hærri en hann átti að fá. Í stað þess að endurgreiða fyrirtækinu launin lét maðurinn sig hverfa. Nokkrum dögum síðar barst tilkynning frá lögfræðingi mannsins um að hann hafi sagt upp starfi sínu. Síðan hefur ekkert heyrst frá manninum.

Maðurinn, sem er ónefndur, vinnur hjá fyrirtækinu Cial, einum stærsta kjötáleggjaframleiðanda heims, í Chile. Samkvæmt chíleskum miðlum fær maðurinn venjulega mánaðarlaun sem nema rúmum 500.000 pesóum en mánaðarmótin maí/júní varð ruglingur hjá launadeild Cial þess valdandi að hann fékk greiddar 165 milljónir chíleskra pesóa.

Hann fékk því óvart 300 sinnum hærri laun en venjulega. Í kjölfarið fór maðurinn til yfirmanna sinna og tilkynnti um ofgreiðsluna. Fyrirtækið sagði manninum þá að hann þyrfti að fara í bankann sinn til að framkvæma endurgreiðsluna. Hann lofaði þeim að fara í bankann næsta dag og gerði það.

En hann greiddi peninginn aldrei til baka. Eftir þrjá daga af símhringingum og skilaboðum frá fyrirtækinu fengu þau loksins svar frá lögfræðingi mannsins sem tilkynnti þeim að maðurinn hafi sagt upp starfi sínu. Síðan þá hefur ekkert heyrst frá manninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×