Erlent

Mannskæð skotárás á skrúðgöngu í Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vitni segja fjölmiðlum vestanhafs að tugum skota hafi verið hleypt af á skömmum tíma.
Vitni segja fjölmiðlum vestanhafs að tugum skota hafi verið hleypt af á skömmum tíma. AP/Lynn Sweet

Minnst sex liggja í valnum og minnst 24 eru særðir eftir að maður hóf skothríð á skrúðgöngu í úthverfi Chicago í Bandaríkjunum. Árásarmaðurinn gengur enn laus og er lögreglan með mikinn viðbúnað á svæðinu.

Lögreglan hefur ráðlagt fólki á svæðinu í Highland Park að halda kyrru fyrir á meðan árásarmaðurinn er leitaður uppi. Lögreglan segir að um hvítan mann, átján til tuttugu ára gamlan, sé að ræða og hann hafi sítt dökkt hár.

Þó árásarmaðurinn sé ófundinn segir lögreglustjórinn í Highland Park að byssa hafi fundist. Maðurinn er þó enn talinn vopnaður.

Þungvopnaðir lögregluþjónar við leit í Highland Park.AP/Nam Y. Huh

Nancy Rotering, bæjarstjóri, segir íbúa Higland Park vera mjög óttaslegna eftir árásina. Hátíðardagur hafi á skotstundu breyst í sorgardag vegna árásarinnar.

Bandaríkjamenn halda upp á þjóðhátíðardaginn í dag og eru skrúðgöngur víða um land. 

Chicago Sun-Times segir að skothríðin hafi byrjað um tíu mínútum eftir að skrúðgangan hófst. Vitni segja og myndbönd sýna að tugum skota var hleypt af og ólíklegt er að árásarmaðurinn hafi notað haglabyssu eða skammbyssu.

Oftast nær þegar mannskæðar skotárásir sem þessar eru gerðar í Bandaríkjunum er notast við hálfsjálfvirka riffla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×