Erlent

Dulbjó sig sem konu eftir árásina

Samúel Karl Ólason skrifar
Robert E. Crimo er sakaður um að hafa myrt sjö manns. Hann hefur ekki verið ákærður en tilefni árásarinnar liggur ekki fyrir enn.
Robert E. Crimo er sakaður um að hafa myrt sjö manns. Hann hefur ekki verið ákærður en tilefni árásarinnar liggur ekki fyrir enn. EPA/AP

Hinn 22 ára gamli Robert E. Crimo, sem sakaður er um mannskæða skotárás í úthverfi Chicago í gær, keypti hálfsjálfvirkan riffil sem hann notaði við árásina með löglegum hætti. Eftir skothríðina er Crimo sagður hafa flúið af vettvangi með því að dulbúa sig sem konu og fela sig meðal flýjandi almennings.

Íbúar Highland Park voru að halda upp á þjóðhátíðardag Bandaríkjanna í gær þegar Crimo kom sér fyrir á þaki og skaut rúmlega sjötíu skotum að fólki á hátíðarsvæðinu.

Sjö létu lífið og rúmlega þrjátíu særðust eða slösuðust í árásinni. Sá sjöundi lést á sjúkrahúsi í dag.

Var með tvo riffla

Crimo skildi riffillinn eftir á þakinu og var á flótta í nokkrar klukkustundir. Lögregluþjónar handtóku hann eftir stutta eftirför í gærkvöldi en annar riffill fannst í bílnum hans, samkvæmt frétt Washington Post.

AP fréttaveitan hefur eftir lögreglunni að Crimo hafi skipulagt árásina um nokkurra vikna skeið. Búið er að yfirheyra hann og fara yfir færslur hans á samfélagsmiðlum en tilefni árásarinnar liggi enn ekki fyrir. Ekki hafa fundist vísbendingar um að Crimo hafi viljað myrða fólk af tilteknum uppruna, trúarbrögðum eða slíku.

Crimo hefur verið ákærður fyrir sjö morð og stendur til að ákæra hann fyrir fleiri glæpi.

Tíðar árásir

Mannskæðar skotárásir hafa plagað Bandaríkin um árabil en undanfarna mánuði hafa þær verið sérstaklega margar. Fólk hefur verið skotið til bana í massavís í skólum, kirkjum, verslunum og nú á skrúðgöngum.

Ekki er búið að gefa út formlegar upplýsingar um fórnarlömbin í þessari nýjustu árás. Nicolas Toledo er þó meðal þeirra sem dóu en hann var að heimsækja fjölskyldumeðlimi sína í Highland Park.

Chicago Sun-Times segir Toledo hafa orðið fyrir minnst þremur skotum en barnabarn hans segir hann hafa bjargað lífi annarra í fjölskyldunni. Sonur Toledo varð einnig fyrir skoti og kærasti afabarns hans einnig.

Miðillinn hefur einnig nefnt Jacki Sundheim sem eitt fórnarlamba Crimo.

Þá hafa fregnir borist af því í kvöld að hjónin Kevin og Irina McCarthy hafi fallið í árásinni.


Tengdar fréttir

Mannskæð skotárás á skrúðgöngu í Bandaríkjunum

Minnst sex liggja í valnum og minnst 24 eru særðir eftir að maður hóf skothríð á skrúðgöngu í úthverfi Chicago í Bandaríkjunum. Árásarmaðurinn gengur enn laus og er lögreglan með mikinn viðbúnað á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×