Fótbolti

Andri Fannar lánaður í hollensku úr­vals­deildina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andri Fannar í leik með íslenska A-landsliðinu.
Andri Fannar í leik með íslenska A-landsliðinu. Vísir/Vilhelm

Hinn tvítugi Andri Fannar Baldursson mun spila með NEC Nijmengen í hollensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Hann kemur til félagsins á láni frá ítalska úrvalsdeildarliðinu Bologna.

Andri Fannar er alinn upp hjá Breiðabliki hér á landi en gekk í raðir Bologna á Ítalíu árið 2019. Eftir að hafa verið inn og út úr aðalliði félagsins var hann lánaður til FC Kaupmannahafnar á síðustu leiktíð. Liðið varð Danmerkurmeistari en Andri Fannar var að glíma við meiðsli og lék lítið með liðinu.

Bologna hefur nú brugðið á það ráð að lána íslenska miðjumanninn á nýjan leik, nú til Hollands. Mun Andri Fannar leika með NEC Nijmengen á komandi leiktíð en þetta var staðfest á samfélagsmiðlum nú í morgunsárið.

Andri Fannar er langt því frá fyrsti Íslendingurinn til að leika með liðinu en til að mynda lék Guðlaugur Victor Pálsson, leikmaður Schalke 04 í dag, með því á sínum tíma sem og landsliðsmarkvörðurinn fyrrverandi Hannes Þór Halldórsson.

Andri Fannar er tvítugur að aldri og leikur nær oftast í stöðu djúps miðjumanns. Hann er hluti af U-21 árs landsliði Íslands sem stefnir á að komast á lokamót EM á næsta ári. Alls á hann að baki 9 A-landsleiki, 8 leiki fyrir U-21 og aðra 34 leiki fyrir önnur yngri landslið.

NEC endaði í 11. sæti hollensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð með 38 stig í 34 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×