Arnar hefur verið framkvæmdastjóri markaðsþróunar hjá Sæplasti frá 2011 en hann hefur gegnt margvíslegum störfum innan fyrirtækisins frá því að hann hóf störf hjá félaginu meðal annars sinnt sölu- og markaðsstarfi, verið verksmiðjustjóri Sæplasts á Dalvík og verið framkvæmdarstjóri Sæplasts í Hollandi.
Sæplast er leiðandi fyrirtæki í heiminum í hönnun og framleiðslu á endurnýtanlegum og endurvinnanlegum kerum og brettum sem notuð eru í matvælaframleiðslu og í endurvinnsluiðnaði. Sæplast hannar og framleiðir einnig breiða vörulínu í byggingatengdum vöruflokkum til dæmis brunna, tanka, rotþrær, skiljur og fleira.
Þessir vöruflokkar eru að stærstum hluta seldir í gegnum byggingavöruverslanir um land allt. Í verksmiðju félagsins á Dalvík starfa að jafnaði um 65 manns en alls eru um 120 starfsmenn hjá Sæplasti í Evrópu.
Rotovia er nýtt félag sem stofnað var eftir að gengið var frá kaupum íslenskra fjárfesta á hverfissteypudeild Berry Global Inc en innan þeirrar deildar eru meðal annars Sæplast og Tempra sem eru félög með langa og farsæla sögu á Íslandi. Hverfissteypudeild Berry Global Inc. var áður hluti af Promens hf. sem selt var úr landi árið 2015 en félagið var á þeim tíma eitt stærsta fyrirtæki landsins.