„Nú er ég bara að horfa út um gluggann hérna og tjöldin liggja mörg niðri á tjaldsvæðinu og hafa brotnað í rokinu,“ segir Guðmundur Bjarnason landvörður sem var staddur í skálanum í Landmannalaugum þegar fréttastofa náði tali af honum.
„Við erum ekki að ráðleggja neinum að koma hingað inn eftir í dag. Hérna á milli fjallanna kemur vindurinn úr öllum áttum og hann er það sterkur að hann ýtir við fólki,“ segir Guðmundur.
Hann segir að um áttatíu manns hafi verið á tjaldsvæðinu í nótt þegar aftakaveðrið hófst. Áttatíu til viðbótar eru svo í skálanum og allir aðrir skálar séu líka fullir á svæðinu en þeir eru fjórir samtals á milli Hrafntinnuskers og Landmannalauga.

„Þetta er svolítið óvanalegt veður á þessum tíma. Þetta er óttalegt ástand. Fólk er komið hingað í rútum og ætlar að fara í göngu. Ætlar að leggja af stað Laugaveginn en er ráðlagt frá því. Og allir skálarnir uppbókaðir,“ segir Guðmundur.
Sóttu göngumenn og máttvana ferðalanga
Björgunarsveitir sóttu tvær konur sem voru sóttar á Fimmvörðuháls í morgun en þær voru veðurtepptar í tjaldi þar. Í tilkynningu frá Landsbjörg segir að þær hafi verið blautar og kaldar eftir baráttuna við veðrið í nótt og of orkulausar til að ganga sjálfar til baka.

Því voru þær sóttar á sexhjólum og fluttar niður. Eftir hádegi voru þær komnar á láglendi og héldu þá til byggða.
Nokkur útköll hafa þá borist björgunarsveitum vegna göngufólks á Fjallabaki sem treysti sér ekki lengra vegna veðurs.
„Við keyrðum hérna inn eftir og sandfokið var þannig að það var ekkert skyggni. Ég get ekki sagt að það hafi verið meters skyggni fyrir framan okkur,“ segir Guðmundur.