Erlent

Shinzo Abe skotinn til bana

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Abe féll til jarðar eftir að hann var skotinn og segja vitni að hann hafi farið í hjartastopp.
Abe féll til jarðar eftir að hann var skotinn og segja vitni að hann hafi farið í hjartastopp. AP/Kyodo

Shinzo Abe, fyrrverandi forsætisráðherra Japan, hefur látist af sárum sínum eftir að hann var skotinn í bakið í nótt. Abe var að flytja ræðu í Nara í vestur Japan í nótt þegar skotmaður skaut hann með haglabyssu og hæfði hann í bakið. Abe var fluttur á spítala í kjölfar árásinnar en nú hefur japanka ríkisútvarpið NHK staðfest að hann sé látinn.

Shinzo Abe, sem hætti sem forsætisráðherra Japan 2020, var að flytja stuðningsræðu fyrir frambjóðanda í Nara þegar skotmaður skaut tvisvar á hann með haglabyssu. Fyrra skotið geigaði en það seinna hæfði Abe í bakið og féll hann samstundis til jarðar.

Skotmaðurinn var í kjölfarið handtekinn af lögreglu og segja vitni að hann hafi ekki gert tilraun til að flýja. Hinn grunaði, Yamagami Tetsuya, er á fimmtugsaldri og er fyrrverandi sjóliði. Svo virðist sem Tetsuya hafi notað heimagerða byssu í árásinni en tilefni árásarinnar er enn óvitað.

Mynd af því þegar Tetsuya Yamagami, sem skaut Shinzo Abe til bana, var tæklaður í jörðina.AP/Katsuhiko Hirano

Japanska ríkisútvarpið NHK sagði í morgun að Abe hafi verið með meðvitund þegar hann var fluttur á spítala eftir skotárásina en ástandi hans var þá lýst sem „hjarta- og öndunarstoppi.“ Nú hefur fjölmiðillinn staðfest að Abe hafi látist af sárum sínum.

Shinzo Abe var forsætisráðherra Japan í eitt ár frá 2006 til 2007 og svo aftur í átta ár frá 2012 til 2020. Hann sagði af sér 2020 vegna sáraristilbólgu sem hann þjáðist af. Hann er sá forsætisráðherra Japans sem hefur gegnt embætti lengst.

Shinzo Abe var forsætisráðherra Japan í alls níu ár og sá forsætisráðherra landsins sem hefur gegnt embættinu lengst.Kim Kyung-Hoon/Getty

Fréttin var uppfærð klukkan 9:05.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×