Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti vopnasendinguna nú í kvöld. Fjögur eldflaugakerfi verða send til Úkraínu, til viðbótar við þau átta sem þegar er búið að senda. Þá verða þúsund nákvæm skot einnig send.
Samkvæmt frétt Politico skjóta Úkraínumenn um fimm þúsund hefðbundnum skotum úr fallbyssum sínum á dag. Rússar eru sagðir skjóta tvöfalt fleiri skotum. Bandaríkjamenn vonast til þess að með þessum þúsund nýju skotum muni Úkraínumenn geta náð betri árangri með mun færri árásum.
Skotin munu gera Úkraínumönnum kleift að gera mun nákvæmari árásir í átökunum við Rússa og vonast Bandaríkjamenn til að þau muni gefa Úkraínumönnum aukna burði til að draga úr yfirburðum Rússa þegar kemur að stórskotaliði.
NEWS: Precision Artillery Rounds Included in Latest Security Assistance Package to Ukraine. https://t.co/TQs6yA3Wpj
— Department of Defense (@DeptofDefense) July 8, 2022
Nota HIMARS með góðum árangri
Fram kom á blaðamannafundi í Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna í dag að rúmlega hundrað úkraínskir hermenn hafi fengið þjálfun í notkun HIMARS-vopnakerfanna.
Fregnir hafa borist af því að Úkraínumenn hafi notað þau átta kerfi sem þeir hafi þegar fengið til að gera árásir á birgðastöðvar og stjórnstöðvar Rússar langt frá víglínum. Úkraínumenn eru sagðir hafa beitt vopnakerfunum með miklum árangri.
Á áðurnefndum blaðamannafundi sögðu Bandaríkjamenn að úkraínskir hermenn væru að koma upp nýjum varnarlínum, eftir fall Luhansk-héraðs og væru að undirbúa varnir Donetsk. Saman mynda héruðin Donbas-svæðið.
Sjá einnig: Lýsa aðstæðum sem „helvíti á jörðu“
Undirbúningur Úkraínumanna var sagður ganga vel, samkvæmt blaðamanni Foreign Policy sem sótti fundinn.
Rússar sagðir skorta baráttuanda
Bandaríkjamenn segja einnig að Rússar eigi í nokkrum vandræðum með baráttuanda hermanna sinna.
„Ég get ekki ímyndað mér að verða fyrir eins miklu mannfalli og Rússar hafa orðið fyrir, og eiga ekki í vandræðum með baráttuanda,“ sagði einn háttsettur embættismaður í Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna.
Fregnir af manneklu í rússneska hernum hafa borist reglulega á undanförnum vikum. Ráðamenn í Kreml hafa forðast það að lýsa formlega yfir stríði og efna til almennrar herkvaðningar. Þess í staðinn hefur rússneski herinn boðið mönnum fúlgur fjár fyrir herþjónustu. Mun hærri laun en við hefðbundnar kringumstæður og styttri samninga en voru í boði fyrir innrásina í Úkraínu.
Sjá einnig: Alvarlegir gallar á rússneska hernum
Í dag bárust svo fregnir af því að verið væri að bjóða rússneskum föngum með reynslu af herþjónustu að ganga í herinn eða ganga til liðs við málaliðahóp sem nefnist Wagner Group og hefur verið lýst við skuggaher Rússlands.
Michael Kofman, sérfræðingur í málefnum rússneska hersins, segir þetta renna frekari stoðum undir fregnir af mikilli manneklu rússneska hersins.
Looks like small numbers, but still, recruiting prisoners with experience reflects the Russian military s desperate need to replace lost manpower. https://t.co/RRs7vV27pq
— Michael Kofman (@KofmanMichael) July 8, 2022