Áætla má að lífeyrissjóðirnir – mestu munar um mikil uppkaup sjóðanna LSR, Gildis og Lífeyrissjóðs verslunarmanna – hafi á þessum tíma aukið við hlutafjáreign sína sem nemur um 17 milljörðum króna sé litið til meðalgengis hlutabréfaverðs Íslandsbanka frá því undir lok marsmánaðar. Markaðsvirði bréfa lífeyrissjóðanna átta í bankanum nemur í dag um 70 milljörðum króna.
Stöðug eftirspurn frá íslenskum lífeyrissjóðum hefur ráðið hvað mestu um að gengi bréfa Íslandsbanka hefur haldist nokkuð stöðugt á tímabilinu samtímis miklum óróa og verðlækkunum á hlutabréfamörkuðum. Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði talsvert fyrst eftir að útboð ríkissjóðs kláraðist 22. mars síðastliðinn, þar sem seldur var 22,5 prósenta eignarhlutur fyrir 54 milljarða á genginu 117 krónur á hlut, og fór hæst upp í rúmlega 130 krónur á hlut í byrjun apríl. Eftir að hafa lækkað nokkuð í kjölfarið hefur gengi bréfa bankans rétt úr kútnum á síðustu dögum og stendur núna í 126 krónum á hlut.
Þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins, sem ráða yfir eignum sem nemur meira en helmingi alls lífeyrissjóðakerfisins, hafa einkum stóraukið við eignarhlut sinn í bankanum á síðustu mánuðum. Samanlagður eignarhlutur LSR, Gildis og Lífeyrissjóðs verslunarmanna er nú um tuttugu prósent en sjóðirnir eru stærstu hluthafar Íslandsbanka að undanskildu íslenska ríkinu sem fer með 42,5 prósenta hlut.
Í hlutafjárútboði ríkissjóðs í mars síðastliðnum, sem fór fram með hröðuðu tilboðsfyrirkomulagi til fagfjárfesta, keyptu 23 lífeyrissjóðir fyrir samtals 19,5 milljarða króna og fengu þeir úthlutað meira en þriðjungi alls þeirra bréfa sem voru seld í útboðinu. Fyrir útboðið áttu lífeyrissjóðirnir samtals um 16 prósenta hlut en þegar var það yfirstaðið var hann orðinn meira en 24 prósent. Í dag er lífeyrissjóðakerfið í heild sinni hins vegar komið með vel yfir 30 prósenta hlut í Íslandsbanka.
Lífeyrissjóðirnir, rétt eins og átti við um meginþorra verðbréfasjóða, tryggingafélaga og fjársterkra einstaklinga sem voru metnir sem langtímafjárfestar af hálfu Bankasýslunnar, fengu úthlutað bréfum í bankanum sem nam yfir 40 prósentum af þeirri upphæð sem þeir skráðu sig fyrir í hinu lokaða útboði til fagfjárfesta. Líta verður hins vegar til þess að lífeyrissjóðir sóttust eftir því að kaupa mun stærri hlut í krónum talið en flestir aðrir sem skiluðu inn tilboðum.
Innherji hefur áður greint frá því að sjóðir í stýringu bandaríska félagsins Capital Group, sem hefur verið einn stærsti eigandi Íslandsbanka allt frá skráningu hans á markað í fyrra, hafi sömuleiðis aukið við eignarhlut sinn í bankanum í maímánuði með kaupum á bréfum fyrir samtals nærri 400 milljónir króna. Capital Group fer núna með 5,22 prósenta eignarhlut í Íslandsbanka.
Var þetta í fyrsta sinn sem Capital Group, eitt stærsta sjóðastýringarfyrirtæki heims með eignir í stýringu að fjárhæð samtals um 2,7 billjónir Bandaríkjadala, bætir við hlut sinn í Íslandsbanka eftir að hafa keypt fyrir um milljarð króna í útboði ríkissjóðs í mars. Fyrir það var Capital Group næst stærsti hluthafi Íslandsbanka – á eftir ríkissjóði – með meira en fjögurra prósenta hlut en sjóðir félagsins voru á meðal hornsteinsfjárfesta í frumútboði og skráningu bankans í júní í fyrra.
Útgerðarfélagið Jakob Valgeir ehf. í Bolungarvík seldi hins vegar á síðustu vikum maímánaðar nær allan eignarhlut sinn í Íslandsbanka fyrir vel á þriðja milljarð króna. Félagið var fyrir söluna stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi bankans með rétt rúmlega eins prósenta hlut.
Salan á bréfunum kom í aðdraganda þess að fyrirtækið, sem er stýrt af Jakobi Valgeiri Flosasyni fjárfesti og útgerðarmanni, festi kaup á nærri fimmtungshlut í Hraðfrystihúsinu Gunnvör á Ísafirði undir lok síðasta mánaðar, eins og Innherji greindi fyrst frá.
Félagið Jakob Valgeir hóf að byggja upp stöðu í Íslandsbanka eftir frumútboð og skráningu bankans á markað í júní í fyrra. Í byrjun þessara árs var félagið þannig komið með um 0,8 prósenta hlut og bætti enn frekar við eignarhlut sinn í útboði ríkissjóðs fyrir meira en tveimur mánuðum þegar það keypti átta milljónir hluta að nafnvirði fyrir samtals 936 milljónir króna.
Ríkisendurskoðun vinnur nú að úttekt á söluferli Íslandsbanka, eftir að hafa fallist á beiðni þess efnis frá fjármálaráðherra, og er niðurstöðu hennar að vænta í næsta mánuði. Þá hefur Fjármálaeftirlit Seðlabankans einnig til rannsóknar tiltekna þætti í tengslum við útboðið og en sé athugun beinist að starfsháttum söluráðgjafa fjármálafyrirtækja, meðal annars þátttöku starfsmanna þeirra í útboðinu og hvort fjárfestar hafi réttilega verið metnir hæfir, en ekki störfum Bankasýslunnar.
Í viðtali við sem birtist við Jón Gunnar Jónsson, forstjóra Bankasýslunnar, í breska tímaritinu Euromoney í maí á þessu ári kom fram að hann teldi að sala ríkissjóðs á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka í útboðinu í mars hafi heppnast betur en frumútboð bankans í júní í fyrra.
„Við seldum meira en 300 daga magn í Íslandsbanka,“ sagði Jón Gunnar og vísar þar til þess að salan hafi samsvarað um 300 daga veltu með bréf bankans í Kauphöllinni. Hann ber niðurstöðuna saman við sölu Kaupþings á tíu prósenta hlut í Arion banka árið 2019 sem var einnig framkvæmd með tilboðsfyrirkomulagi.
„Til að setja það í samhengi var 150 daga velta seld með 8 prósenta afslætti í framhaldsútboði Arion banka árið 2019.“