Innlent

Launaviðtalið varð að líkamsárás

Samúel Karl Ólason skrifar
Mörg verkefni lögreglunnar í dag tengdust ölvun í miðbænum.
Mörg verkefni lögreglunnar í dag tengdust ölvun í miðbænum. Vísir/Vilhelm

Lögregluþjónar höfðu í nógu að snúast á höfuðborgarsvæðinu í dag. Útköllin voru af mörgum toga í dag og má þar nefna að maður gekk berserksgang í verslun, menn slógust í miðbænum og var stolnum bíl ekið aftan á strætó.

Þegar lögregluþjóna bar að garði í versluninni í Breiðholti var berserkurinn farinn en hann hafði valdið þar skemmdum og reynt að slá starfsmann.

Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur einnig fram að ölvaður maður hafi ekið aftan á strætisvagn snemma í morgun. Sá sagðist ekki vilja bíða lögreglunnar á vettvangi vegna þess að hann væri undir áhrifum og gekk á brott.

Lögregluþjónar komust fljótt að því að bílnum hefði verið stolið nýverið en vitað er hver maðurinn er og er hans leitað.

Þá barst lögreglunni tilkynning um líkamsárás í Garðabæ. Þar hafði starfsmaður krafist launauppbótar í samræmi við samkomulag sem hann sagðist hafa gert við yfirmann sinni. Starfsmaðurinn segir yfirmanninn ekki hafa viljað virða samkomulagið og kjarabaráttan hafi endað á því að yfirmaðurinn hafi ráðist á sig.

Lögreglan segir málið í rannsókn.

Einnig bárust tilkynningar upp úr hádegi um slagsmál á Austurvelli og mun annar mannanna sem þar slógust hafa verið með hníf á lofti. Sá var handtekinn en í dagbók lögreglunnar segir að hann fái að svara til saka fyrir atferli sitt er hann verði í skýrsluhæfu ástandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×