Í apríl greindi streymisveiturisinn Netflix frá því að verið væri að skoða að bjóða upp á ódýrari áskriftarleið að efni þeirra sem innihéldi auglýsingar. Verkefnið virðist fara vel af stað því fyrirtækið er komið í samstarf við tæknifyrirtækið Microsoft sem á að sjá um þessa auglýsingahlið streymisveitunnar.
Verkefnið er þó ekki komið langt á leið en í tilkynningu á vef Netflix segir að þetta sé hluti af stefnu fyrirtækisins.
Alls eru 221 milljón manns með áskrift af Netflix en fyrirtækið skilaði af sér tapi í fyrsta sinn í meira en tíu ár á fyrsta ársfjórðungi 2022. Með því að bjóða upp á þessa ódýrari áskriftarleið er vonast eftir því að auka innkomu fyrirtækisins.