Yashin er einn fárra sem hefur vogað sér að mótmæla innrás Rússa í Úkraínu og tala um stríð en ekki „sérstaka hernaðaraðgerð“. Nú er hann sakaður um að dreifa falsfréttum um herinn sem varðað getur allt að 15 ára fangelsi.
Hann var handtekinn án útskýringar í lok júní þar sem hann sat á bekk í almenningsgarði með vini sínum. Hópur fólks kom saman við dómshúsið í morgun til að mótmæla ákærunni.
Maria Eysmont lögmaður Yashin segir hann hafa mótmælt ákærunni, en innihald hennar hafi enn ekki verið birt honum.
„Í samræmi við 91. og 92. gr. hegningalaga skrifaði Yashin að hann mótmælti varðhaldinu þar sem það væri ólöglegt. Það væri byggt á stjórnmálaskoðunum og að hann skildi ekki hvað lægi að baki sakagiftum þar sem ákæran verði ekki lögð fram fyrr en á morgun,“ sagði lögmaðurinn.