Viðskipti erlent

Bill Gates heitir því að detta af listanum yfir auðugustu menn heims

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gates var ríkasti maður heims frá 1995 til 2010 og aftur frá 2013 til 2017.
Gates var ríkasti maður heims frá 1995 til 2010 og aftur frá 2013 til 2017. Getty/Wire Image/Taylor Hill

Auðjöfurinn og frumkvöðullinn Bill Gates hefur heitið því enn og aftur að gefa auðæfi sín og segist stefna að því að detta af listum yfir ríkustu einstaklinga veraldar. Eins og stendur er hann í fjórða sæti, á eftir Elon Musk, Jeff Bezos og Bernard Arnault og fjölskyldu.

Gates segir það skyldu sína að gefa auð sinn aftur til samfélagsins en eins og kunnugt er auðgaðist hann gríðarlega á því að stofna og eiga tölvufyrirtækið Microsoft. Eignir hans eru nú metnar á um 118 milljarða Bandaríkjadala en hann hyggst nú gefa 20 milljarða til Bill & Melinda Gates Foundation.

Um er að ræða góðgerðastofnun sem hann stofnaði með eiginkonu sinni en þau eru nú skilin.

Gates sagði á Twitter að stofnunin myndi auka styrkveitingar sínar úr 6 milljörðum á ári í 9 milljarða fyrir árið 2026 vegna nýlegra bakslaga, meðal annars kórónuveirufaraldursins og innrásarinnar í Úkraínu.

„Er ég horfi til framtíðar þá hyggst ég gefa næstum allan auð minn til stofnunarinnar. Ég mun færast niður og að lokum af listanum yfir ríkasta fólk heims,“ segir Gates.

Bill & Melinda Gates Foundation hefur meðal annars unnið að því að styrkja bóluefnarannsóknir og útrýma sjúkdómum á borð við malaríu. Þá er stofnunin stærsti einkarekni stuðningsaðili Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og aðeins á eftir Bandaríkjunum þegar kemur að fjárstuðningi við WHO.

Stofnunin hefur notið mikils stuðnings annars auðjöfurs, Warren Buffet, sem Gates segist hafa lært mikið af. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×