Viðskipti innlent

Markaðurinn róaðist minna en búist var við

Árni Sæberg skrifar
Fasteignaverð hefur hækkað meira en hagfræðideild Landsbankans gerði ráð fyrir.
Fasteignaverð hefur hækkað meira en hagfræðideild Landsbankans gerði ráð fyrir. Vísir/Vilhelm

Íbúðaverð hækkaði um 2,2 prósent milli maí og júní. Það er minni hækkun en undanfarna mánuði en þó meiri en hagfræðideild Landsbankans hafði reiknað með.

Í hagsjá hagfræðideildarinnar segir að vísbendingar hefðu borist um rólegri markað en það sjáist ekki enn í tölum um verðþróun. Deildin hækkar verðbólguspá sína um 0,1 prósent í 9,3 prósent.

Athygli vekur að fjölbýli hækkar umtalsvert meira milli mánaða en sérbýli. Fjölbýli hækkar um 2,6 prósent en sérbýli aðeins 0,8 prósent. „Á síðustu mánuðum hefur sérbýli hækkað á bilinu tvö til fjögur prósent milli mánaða og er hækkunin á sérbýli því mun hófstilltari nú,“ segir í hagsjánni.

Þá segir að hækkun á fjölbýli sé aftur á móti í takt við þróun síðustu mánaða og markaðurinn sé ekki farinn að sýna marktæk merki kólnunar.

Verð umfram laun nálægt hæstu hæðum

Í hagsjánni segir að sé litið til þróunar verðs á íbúðarhúsnæði umfram annað sjáist að að íbúðir hafa hækkað hraðar en aðrir undirliðir í vísitölu neysluverðs og að íbúðaverð hefur ekki mælst jafn hátt frá aldamótum.

Það sama eigi við um verð á íbúðum umfram byggingarkostnað.

„Verð á íbúðum umfram laun2 hefur þó ekki enn náð sama raunstigi og var þegar mest lét árið 2007 þó það muni orðið afar litlu,“ segir hagfræðideildin.

Marg bendi til þess að hækkanir íbúðaverðs séu komnar fram úr því sem æskilegt getur talist og því sé von á hófstilltari verðþróun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×