Innherji

Heiðar selur allt í Sýn fyrir 2,2 milljarða og hættir sem forstjóri

Hörður Ægisson skrifar
Heiðar Guðjónsson er forstjóri Sýnar.
Heiðar Guðjónsson er forstjóri Sýnar. Vísir/Vilhelm

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, hefur selt allan 12,7 prósenta hlut sinn í fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækinu fyrir tæplega 2,2 milljarða króna. Samhliða sölunni mun Heiðar láta af störfum sem forstjóri félagsins um mánaðarmótin.

Fjárfestingafélagið Ursus, sem er í eigu Heiðars, gekk frá sölu á bréfunum um helgina á genginu 64 krónur á hlut. Það er rúmlega níu prósentum hærra gengi en hlutabréfaverð Sýnar stóð í við lokun markaða síðastliðinn föstudag.

Ekki hefur verið greint frá því í flöggun til Kauphallarinnar um kaupendur að hlut Heiðars í Sýn.

Heiðar, sem tók við starfi forstjóra Sýnar árið 2019 eftir að hafa áður verið stjórnarformaður félagsins, var fyrir söluna stærsti hluthafi félagsins.

Heiðar bætti síðast við sig í Sýn í byrjun júnímánaðar á árinu þegar hann keypti 2 milljónir hluta að nafnverði á genginu 57,5 krónur á hlut.

Bréf Sýnar hækkuðu verulega í verði síðastliðinn vetur, úr 40 krónum í lok september upp í 67 krónur um miðjan febrúar, en síðan þá hafa stríðsátökin í Úkraínu og efnahagslegar afleiðingar þeirra litað verðþróun fjarskiptafélagsins og annarra skráðra félaga.

Fyrir opnun markaða í dag hafði hlutabréfaverð Sýnar lækkað um tæplega 11 prósent frá áramótum.

Innherji er undir hatti Sýnar hf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×