Þessi 37 ára knattspyrnumaður hefur sagst vilja fara frá United í sumar og ferðaðist ekki með liðinu til Ástralíu á undirbúningstímabilinu af persónulegum ástæðum. Ronaldo hefur ekki æft með liðinu í sumar, en er nú mættur aftur til Manchester.
Ten Hag sagði fyrr í sumar að Ronaldo væri ekki til sölu og að hann væri hluti af hans áformum í liðinu á komandi tímabili. Þjálfarinn sagði einnig að þeir hafi átt gott spjall fyrir ferðalagið til Ástralíu, en fjarvera leikmannsins hefur þó ýtt undir þær hugmyndir að leikmaðurinn sé á förum frá félaginu.
Cristiano Ronaldo finally back in Manchester today as reported by @David_Ornstein - he will discuss with Man United. Erik ten Hag, waiting to meet with Cristiano as he wants to change his mind. 🚨🛩 #MUFC
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) July 25, 2022
J. Mendes, pushing to find a solution. Man Utd insist he's not for sale. pic.twitter.com/VsgbBUp1ts
Illa hefur gengið hjá þessum markahæsta leikmanni sögunnar að koma sér í annað lið. Hann var um tíma orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea og þá velti fólk einnig fyrir sér hvort endurkoma til Real Madrid væri í kortunum. Nú fyrir stuttu var hann einnig orðaður við Atlético Madrid, en ekkert af þessu virðist ætla að verða að veruleika.
Ronaldo á ár eftir af samningi sínum við United og þá er möguleiki á eins árs framlengingu á samningnum.
United hafnaði í sjötta sæti deildarinnar og liðið missti því af sæti í Meistaradeild Evrópu. Evrópudeildin blasir því við portúgölsku stórstjörnunni í fyrsta skipti á ferlinum, en það er ekki keppni sem helstu sérfræðingar telja að Ronaldo vilji prófa á þessum tímapunkti ferilsins.