Innlent

Á­kærður fyrir til­raun til mann­dráps vegna stungu­á­rásar við Prikið

Árni Sæberg skrifar
Árásin átti sér stað við skemmtistaðinn Prikið við Ingólfsstræti.
Árásin átti sér stað við skemmtistaðinn Prikið við Ingólfsstræti. Vísir/Vilhelm

Mál nítján ára karlmanns verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hann er ákærður fyrir tilraun til manndráps fyrir að hafa stungið mann á þrítugsaldri fyrir framan skemmtistaðinn Prikið í apríl síðastliðnum.

Tveir voru handteknir aðfaranótt 15. apríl síðastliðins eftir að karlmaður um tvítugt særðist lífshættulega í stunguárás á Ingólfsstræti fyrir framan Prikið. Tengsl voru milli hins stungna og þeirra handteknu.

Hinn stungni var fluttur með hraði á bráðamóttöku Landspítala þar sem hann gekkst undir aðgerð en hann var talinn í lífshættu.

Annar þeirra handteknu var úrskurðaður í gæsluvarðhald en hinn látinn laus. Nú hefur annar þeirra verið ákærður fyrir tilraun til manndráps en sá stungni hlaut fimm sentímetra langan og nokkuð djúpan skurð á vinstri síðu og í gegnum þind, auk áverka á rifi.

Ákæruvaldið fer fram á að árásarmaðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar auk þess að þola upptöku tveggja hnífa, að því er segir í ákæru sem Vísir hefur undir höndum.

Fyrir hönd brotaþola er gerð einkaréttarkrafa sem hljóðar upp á 2,1 milljón króna í skaðabætur auk vaxta og málskostnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×