„Við erum ennþá í framkvæmdum og erum að ganga frá tengingunni frá fjallsbrún yfir í pallinn en við gerðum bráðabirgðainngang á pallinn við endann á pallinum. Svo gerðum við grindverk til að skerma af framkvæmdasvæðið. Gestir geta farið út á pallinn en það er ekki búið að sprengja blöðrur og brjóta kampavínsflöskur,“ segir Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri Bolungarvíkur í samtali við Vísi.
Vegurinn upp á Bolafjall sé kominn í toppstand en viðhald vegarins gekk erfiðlega í vetur eins og Vísir fjallaði um fyrr í sumar.
„Hann var heflaður núna í sumar og rykbundinn og settar stikur og gerðar lagfæringar á honum. Hann er í toppstandi. Þetta er ekki ártúnsbrekkan en miðað við malarveg þá er þetta með betri malarvegum sem ég hef kynnst um æfina,“ segir Jón.
Pallurinn hefur verið umtalaður en Gulli Byggir fékk að fylgjast með framkvæmdunum við útsýnispallinn. Verkið kláraðist ekki í þættinum í gær en pallurinn var komin upp undir lok þáttarins og átti aðeins eftir að klára hann í heild sinni. Þátturinn var sýndur á Stöð 2 í október 2021 en nú er hægt að sjá þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að neðan.