Körfubolti

Bill Russell er látinn

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Bill Russell.
Bill Russell. vísir/Getty

Bill Russell, sigursælasti leikmaður NBA deildarinnar frá upphafi, lést í dag 88 ára gamall að aldri.

Hann hafði glímt við veikindi en í tilkynningu frá fjölskyldu Russell segir að hann hafi kvatt þennan heim friðsællega með eiginkonu sína sér við hlið.

Russell varð ellefu sinnum NBA meistari á ferli sínum með Boston Celtics á árunum 1956-1969 og var fimm sinnum valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar en enginn leikmaður hefur unnið deildina jafn oft.

Russell er goðsögn í körfuboltaheiminum um allan heim og í miklum metum í íþróttasamfélaginu í Bandaríkjunum en hann og íshokkíleikmaðurinn Henri Richard eru sigursælustu íþróttamennirnir í bandarískum hópíþróttum frá upphafi.

Hann lék jafnan í treyju númer 6 hjá Boston Celtics og var það treyjunúmer sett upp í rjáfur TD Garden þegar Russell hætti að spila. Hann var meðlimur í heiðurshöll NBA deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×