Almannavarnarnefnd fundaði í hádeginu ásamt stórum hópi til að fara yfir stöðu mála en talið er að ný innskotavirkni sé hafin í kring um ganginn sem myndaðist við eldgosið í Geldingadölum.
Mikil skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesi undanfarna tvo sólarhringa. Stærsti skjálftinn var í gær, og mældist hann 5,5 að stærð, en á annan tug skjálfta yfir þremur að stærð hafa mælst í nótt og í dag.

„Til þess að vera við öllu búin þurfum við að vita hvers er að vænta eins og hægt er hverju sinni, það eru núna miklu meiri mælingar til heldur en í upphafi, fyrir tveimur og hálfu ári þegar þessar hrinur byrjuðu og jarðskjálftarnir,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.
Komi til eldgoss séu mestar líkur á að það verði á svipuðum slóðum og gosið í Geldingadölum.
„Sem er eins gott og hugsast getur miðað við að það gjósi á annað borð og það verði uppi hraun. Þannig að við bara verðum að búast við þessu og bregðast við eftir aðstæðum.“
Fólk sé orðið þreytt á skjálftunum.
„Þessir stærstu eru erfiðir að upplifa vegna þess að þeir eru svo sterkir, þeir eru svo nálægt,“ segir Ólafur Már Guðmundsson, trésmiður hjá Grindinni í Grindavík.
Þegar stóri skjálftinn reið yfir í gær féllu innanstokksmunir víða úr hillum.
„Það voru sprungur í gólfi og í raun og veru hrundu hér hlutir, kaffikönnur og allar skúffur opnar og allt þetta, það brotnuðu styttur í húsum,“ segir hann. Linoleum-gólfdúkur á verkstæði Grindarinnar sprakk í skjálftanum og löng sprunga myndaðist í anddyri verkstæðisins.

Hann segir að bæjarbúum líði eins og þau séu komin aftur á sama stað og í fyrra.
„Fólk gleymir ekkert því sem var í gangi í fyrra. Það var mjög langur tími, nokkrar vikur, stanslausir skjálftar og svona miðað við umræðuna hjá fólki finnst mér fólk vera komið þangað: já, já þetta er að byrja aftur, það sem við gengum í gegn um í fyrra.“