„Það var minnsta mál að komast þangað. Bíllinn fór létt með þetta, þetta er 46 tommu breyttur Jeep. Þú þarft að vera á vel breyttum jeppa til að komast þangað,“ segir Gylfi í samtali við fréttastofu.
Hann segir að björgunarsveitir séu á svæðinu en að þær hafi enn ekki haft afskipti af þeim. Hann telur þó að það styttist í það.

„Þetta er alveg magnað. Við stöndum núna það nálægt að það eru bara fjörutíu, fimmtíu gráður. Fötin eru að bráðna af okkur,“ segir Gylfi en hann var nánast alveg upp við hraunið þegar hann mælti þessi orð.
Hann segir ekki marga hafa verið jafn nálægt gosinu og hann var en þó einhverjir, þá sérstaklega fjölmiðlafólk og viðbragðsaðilar.
Á svæðinu þar sem hann var er hagstæð vindátt og blés gasið sem kom frá gossprungunni í burt frá honum og félögum hans.
Rétt er að minna á að almannavarnir hafa varað fólk við því að ganga í átt að gosstöðvunum vegna hættu á gasmengun. Þá er akstur utan vega að sjálfsögðu bannaður eins og bent var á á vef Umhverfisstofnunar í dag.