Um klukkan átján í gærkvöldi sendu Almannavarnir smáskilaboð í síma allra þeirra sem voru í námunda við gosstöðvarnar í Meradölum. Samkvæmt stöðuskýrslu Samhæfingarstöðvar Almannavarna vegna eldgossins voru um tíu þúsund farsímar á svæðinu. Því virðist sem beiðni Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, um að fólk biði með göngur upp að eldgosinu hafi ekki bitið.
Fréttamenn okkar sem staddir voru þar fóru ekki varhluta af þeim mikla fjölda ferðamann sem þangað voru komnir og náðu tali af nokkrum þeirra. Sjá má viðtöl við nokkra spennta erlenda ferðamenn í spilaranum hér að neðan:
Erlendu ferðamennirnir virtust fréttamanni okkar jafnvel spenntari og glaðari með gosið en þeir íslensku. Gleði þeirra væri barnslegri. Einn ferðamaður sagði gosið vera það allra fallegasta sem hann hefði nokkurn tíman barið augum.
„Það er sprunga í jörðinni og hraun vellur upp. Þetta er magnað og í fyrsta skipti sem ég sé slíkt,“ segir erlendur ferðamaður í samtali við fréttastofu og fleiri tóku undir.
„Ég er mjög ákafur af því það er ekki á hverjum degi sem maður kemur til Íslands og maður sér ekki eldgos á hverjum degi,“ sagði ferðamaður sem hætti við allar áætlanir gærdagsins og brunaði að gosstöðvunum ásamt ókunnugum ferðamanni sem hann hafði hitt í fyrradag.