Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.
Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Líklegast finnst mér skemmtilegast að sjá hvernig tískan fylgir tíðarandanum hverju sinni.
Menning og andrúmsloftið á hverjum tíma hefur að sjálfsögðu mikil áhrif á hvernig tískan þróast.
Sterkasta dæmið um slíkt var hvernig 80’s tískan endurspeglaði þá miklu neysluhyggju sem þreifst á þeim tíma. Einnig finnst mér gaman að fylgjast með því hvernig tískan fer í hringi, til dæmis á sér stað mikil 90‘s og 00‘s nostalgía sem endurspeglast að hluta til í tískunni í dag.
Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Ég er með algjört jakkablæti enda á ég alltof marga miðað við að ég bý á Íslandi. Uppáhalds jakkinn minn er ábyggilega blái noon goons jakkinn minn.
Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Það fer eftir ýmsu en ég held að ég eyði almennt ekki miklum tíma í að velja föt hverju sinni, finnst það koma til mín nokkuð fljótt.
Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Ég myndi segja að hann væri fjölbreyttur.
Getur verið nokkuð skrautlegur suma daga og svo frekar afslappaður og hversdagslegur aðra daga.
Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Já ég myndi segja það. Á tímapunkti var ég með smá þráhyggju fyrir 60‘s tískunni og þessu preppy, WASP útliti. Á þeim tíma var ég alls ekki aðdáandi að götutísku en svo breyttist það og endaði ég á því að taka hana inn í stílinn minn.
Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Það er svolítið erfitt að ákvarða það en ég sæki innblástur víða. Ég myndi þó segja að ég sæki mikinn innblástur frá fólki í nánu samneyti við mig og verð ég að minnast sérstaklega á móður mína Sæunni sem er algjört fashion icon. En ég horfi líka mjög mikið á önnur tímabil og þá sérstaklega 60's, 70's og 90's tísku.
Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Nei almennt ekki, er mjög opinn fyrir öllu og ef ég hef einhver boð og bönn á einhverjum tímapunkti getur það oft endað á því að snúast.
Eitthvað sem mér finnst asnalegt í dag getur mér fundist geggjað á morgun.
Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Það eru líklegast bleiku jakkafötin sem ég var í þegar ég útskrifaðist úr grunnnámi í HÍ.
Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Ábyggilega að fólk sé opið fyrir nýjum möguleikum og óhrætt við að prófa sig áfram í fatavali.