Innlent

Segja of snemmt að útiloka byggingu flugvallar í Hvassahrauni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Dagur og Einar virðast samstíga í flugvallarmálum.
Dagur og Einar virðast samstíga í flugvallarmálum. Vísir/Vilhelm

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, segja báðir rétt að bíða eftir niðurstöðum áhættumats Veðurstofu Íslands vegna flugvallar í Hvassahrauni; of snemmt sé að útiloka þann möguleika.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði á dögunum að það kæmi varla lengur til greina að byggja flugvöll í Hvassahrauni í ljósi yfirlýsinga sérfræðinga um nýtt gostímabil á Reykjanesi. 

Dagur segir þennan möguleika hins vegar alls ekki úr myndinni.

„Ég tek alls ekki undir með þeim sem hafa geyst fram í þessari umræðu og sagt að allar framtíðarfjárfestingar í innviðum á Reykjanesi séu úr sögunni,“ segir borgarstjóri.

Undir þetta tekur Einar en segir hins vegar skynsamlegt að skoða einnig aðra kosti sem fyrst. 

„Óháð því hvað menn vilja gera með Reykjavíkurflugvöll og þá starfsemi sem þar er þá er mikilvægt að koma upp öflugum varaflugvelli á suðvesturhorninu,“ segir hann. 

Um sé að ræða tvö aðskilin mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×