Innlent

Vill að til­mæli verði gefin út um göngu barna að gosinu

Árni Sæberg skrifar
Í fyrrakvöld lentu erlend hjón í vandræðum þegar tvö ung börn þeirra örmögnuðust á leið frá gosstöðvunum. Kolbrún Baldursdóttir vill að yfirvöld beiti sér gegn því að fólk taki börn sín með upp að gosinu.
Í fyrrakvöld lentu erlend hjón í vandræðum þegar tvö ung börn þeirra örmögnuðust á leið frá gosstöðvunum. Kolbrún Baldursdóttir vill að yfirvöld beiti sér gegn því að fólk taki börn sín með upp að gosinu. Samsett

Borgarfulltrúi Flokks fólksins mælist til þess að yfirvöld gefi út sérstök tilmæli til foreldra að þeir taki fyrirmælum um að fara ekki með ung börn sín að eldgosinu í Meradal alvarlega.

„Ég, Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins vil mælast til þess að yfirvöld og umboðsmaður barna gefi út sérstök tilmæli til foreldra að þeir taki alvarlega þegar þeir eru beðnir um að fara ekki með ung börn sín að gosstöðvunum,“ svo hefst yfirlýsing sem Kolbrún sendi fréttastofu í tilefni af fréttaflutningi af því að ung börn séu í nokkrum mæli tekin með upp að gosstöðvunum í Meradölum.

Í gær var greint frá því að tvö ung börn hefðu örmagnast á leið niður frá gosstöðvunum í erfiðum veðuraðstæðum. Björgunarsveitarmaður sagði í samtali við Vísi að nokkuð algengt væri að fólk tæki ung börn sín með í gönguna, sér í lagi erlendir ferðamenn.

Minnir á tilkynningarskylduna

Kolbrún segir að foreldrar ættu ekki heldur að taka með börn sem orðin eru stálpuð en vegna ungs aldurs hafi hvorki þrek né úthald til að ganga langa vegalengd, leið sem er bæði grýtt og brött á köflum.

Þá minnir Kolbrún á tilkynningarskyldu sextándu greinar barnaverndarlega sem kveður á um að öllum sé skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barni sé stefnt í hættu.

Þá sé það hlutverk foreldra að gæta að velferð og vellíðan barna sinna. Í fyrstu grein barnaverndarlaga segir að foreldrum beri að gæta velfarnaðar barna sinna í hvívetna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×