Innlent

Gosstöðvarnar verða áfram lokaðar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Svartaþoka hefur tekið á móti ferðamönnum sem hafa ætlað sér að sjá gosið síðustu daga.
Svartaþoka hefur tekið á móti ferðamönnum sem hafa ætlað sér að sjá gosið síðustu daga. vísir/vilhelm

Tekin hefur verið ákvörðun um að áfram verði lokað inn á gosstöðvarnar í dag, þriðjudag, vegna veðuraðstæðna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Heldur vont veður er í kortunum á svæðinu í dag. „Ákvörðun um opnun svæðisins verður tekin á stöðufundi klukkan 8:30 í fyrramálið, miðvikudaginn 10. ágúst og tilkynning send á fjölmiðla í kjölfarið,“ segir jafnframt í tilkynningu.

Gosstöðvarnar hafa verið lokaðar síðan á mánudag en í gær gekk heldur illa að halda fólki frá því að fara að gosstöðvunum. Til að mynda var um tíu manns var bjargað af björgunarsveitarfólki eftir heldur strembna leit í svartaþoku í gær. Voru ferðamennirnir kaldir og hraktir.

„Það er enn strekkingsvindur þarna og gríðarlega mikil rigning, það á töluvert eftir að rigna næstu tvo til þrjá tímana en svo ganga skilin yfir og við tekur töluvert skárra veður. Ég er nú hræddur um að það verði frekar lágskýjað og þungbúið áfram.“ Þetta sagði Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á veðurstofu Íslands, í samtali við fréttastofu í morgun þegar hann var spurður út í veðurhorfur á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×