„Hafandi gengið í gegnum alvarlega krísu undanfarið, skil ég núna að ég glími við fjölþættan geðrænan vanda og hef hafið meðferð við honum,“ segir Miller í fréttatilkynningu sem hán sendi Variety.
Mikið hefur gustað um Miller undanfarið, ekki síst í tengslum við komur háns hingað til lands. Myndband sem tekið var árið 2020 sýnir hán taka unga konu hálstaki fyrir utan skemmtistaðinn Prikið í Reykjavík og nú síðast steig önnur ung kona fram og deildi reynslu sinni af martraðarkenndri dvöl með Miller á Hótel Laugarbakka.
Þá hefur verið greint frá því að Miller hafi komist í kast við lögin á Hawaii og í Vermont í Bandaríkjunum.
Biðst afsökunar á að hafa valdið áhyggjum
Leikarinn hefur nú beðist afsökunar á hegðun sinni undanfarið án þess þó að gangast beint við ásökunum um ofbeldi.
„Ég vil biðja alla afsökunar sem ég hef valdið áhyggjum eða komið í uppnám með hegðun minni í fortíðinni. Ég hef einsett mér að vinna nauðsynlega vinnu til að komast aftur á heilbrigðan, öruggan og afkastamikinn stað í lífinu,“ segir hán.
Heimildarmaður Variety nálægt kvikmyndaframleiðandanum Warner Bros. Discovery segir að fyrirtækið styðji ákvörðun Millers að leita sér hjálpar. Hán leikur tvö stór hlutverk í kvikmyndum framleiðslufyrirtækisins, Flash í samnefndri kvikmynd um ofurhetjuna fótfráu og Creedence Barebone í myndaflokknum Fantastic Beasts, sem er forsaga að sögunum um Harry Potter.
Undanfarið hefur mikið verið rætt um það að Miller verði skipt út úr hlutverkunum tveimur með tilheyrandi framleiðsluvanda.