Þetta hefur Morgunblaðið eftir Helga Grímssyni, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs. Í gær gekkst Helgi við því að borgin hafi verið of fljót á sér að lofa öllum börnum tólf mánaða og eldri leikskólaplássi í haust.
Stýrihópurinn fundaði í gær ásamt Einari Þorsteinssyni, formanni borgarráðs, borgarritara og upplýsingastjóra borgarinnar. Í frétt Morgunblaðsins um málið segir að á fundinum hafi staða á framkvæmdum verið rædd ásamt innritun barna í leikskóla.
„Við erum með minnisblað í mótun en við erum ekki komin á þann stað að geta sagt til um neitt enn þá,“ var haft eftir Helga í gær.
Leikskólamálin í borginni hafa mikið verið í umræðunni undanfarið en loforð borgarinnar um að öll börn tólf mánaða og eldri fengju pláss á leikskóla í haust stóðust ekki.
Uppgefnir foreldrar hafa meðal annars tekið upp á því að mótmæla í ráðhúsinu og hóta að koma upp hústökuleikskóla þar.