Enski boltinn

Man United í­hugar að fá Pulisic á láni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nýjasti leikmaðurinn til að vera orðaður við Man United.
Nýjasti leikmaðurinn til að vera orðaður við Man United. Matthew Ashton/Getty Images

Forráðamenn Manchester United halda áfram að draga nöfn upp úr hatti og íhuga hvort félagið ætti að reyna sækja þann leikmann sem kemur upp hverju sinni.

Eftir að hafa verið orðað við Casemiro, miðjumann Evrópumeistara Real Madríd, og Yann Sommer, markvörð Borussia Mönchengladbach, þá virðist sem Man Utd vilji fá Christian Pulisic á láni frá Chelsea.

Pulisic er eftirsóttur en samkvæmt heimildum The Athletic hafa Newcastle United, Juventus og Atlético Madríd öll augastað á þessum 23 ára gamla vængmanni. Chelsea borgaði 58 milljón punda fyrir leikmanninn árið 2019 en hann hefur ekki náð að sýna sínar bestu hliðar í Lundúnum.

Nú virðist Chelsea tilbúið að láta Pulisic fara og leikmaðurinn virðist tilbúinn líka. Hann er í leit að meiri spiltíma svo hann verði í sínu besta formi er HM í Katar hefst. Þar mun hann leiða þjóð sína út en Pulisic er fyrirliði liðsins.

Hann hefur komið inn af bekknum í fyrstu tveimur leikjum Chelsea á leiktíðinni en vill vera í liði þar sem hann á meiri möguleika á að byrja leiki.

Samkvæmt The Athletic væri Pulisic helst til í að fara til Manchester United þó svo að liðið sitji á botni ensku úrvalsdeildarinnar án stiga. Mögulega sér hann fram á að fá nóg að spila í liði sem sárlega vantar neista fram á við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×