Viðskipti innlent

Stytta af­greiðslu­tímann í Árbæ vegna mann­eklu

Atli Ísleifsson skrifar
World Class-hjónin Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir fyrir utan World Class Laugum í Laugardal.
World Class-hjónin Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir fyrir utan World Class Laugum í Laugardal. Vísir/Vilhelm

Afgreiðslutími líkamsræktarstöðvar World Class í Árbæ mun styttast frá og með í næstu viku. Mun stöðin loka klukkan 20 á virkum dögum í stað klukkan 22 og klukkan 13 á laugardögum í stað klukkan 16. Þá verður stöðin lokuð á sunnudögum en var áður opin til klukkan 13 þá daga.

Greint er frá breyttum afgreiðslutíma á heimasíðu World Class, en í samtali við Morgunblaðið segir Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class, að ástæða skerðingarinnar sé að erfitt sé að fá fólk í vinnu. Hann segir að ekki standi til að stytta afgreiðslutíma annarra stöðva.

Björn segir að uppgangurinn í ferðaþjónustunni sé helsta ástæða þess að erfiðara hafi reynst að fá fólk til starfa að undanförnu, en margir í þeim aldurshópi sem hafi sótt um starf hjá World Class hafi fengið starf hjá flugfélögunum.

Hann bendir á að viðskiptavinir World Class hafi áfram sama aðgang að Árbæjarlauginni, enda sé líkamsræktarstöðin ekki beintengd sundlauginni. Viðskiptavinir komist áfram í laugina þó að lokað sé í líkamsræktarstöðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×