Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.
Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Hún gefur svo mikil tækifæri til að tjá sig án þess að segja orð. Ég elska að sjá fólk klæða sig eins og þeim finnst flott, sama hvort mér finnst það eða ekki.
Það er nefnilega svo smitandi þegar fólk er ánægt með klæðaburðinn sinn.
Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Það breytist oft eftir dögum hver uppáhalds flíkin mín er. Þessa stundina er það vintage Raquel allegra jakki sem ég keypti á pop up fatamarkaði í Skipholtinu. Hann er svo fallegur, ég hef alltaf elskað að eiga eitthvað sem er alveg einstakt og enginn annar á.
Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Það er allur skalinn á því en ég er mjög oft búin að púsla einhverju saman í hausnum á mér sem mig langar að vera í. Það er svo gaman að finna leiðir til að raða gömlu flíkunum sínum upp á nýtt og líða eins og þú sért í glænýju outfitti.
Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Litríkur og glitrandi.
Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Ég myndi ekki endilega segja að hann hafi breyst heldur frekar bara þróast með mér. Ég finn fyrir mikilli hamingju að klæðast litríkum og mynstruðum fötum og hef alltaf gert. Svo má auðvitað ekki gleyma skartinu og þá helst margir hringar og ýktir eyrnalokkar.
Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Vá það er alls staðar. Stundum frá fólki úti á götu en ég skoða líka mikið Pinterest og svo er nokkrar drottningar sem ég fylgist mikið með á Instagram eins og alannanicolex, maxinewylde, sianeastmentwilliams og itsjulettefoxx.
Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Ekkert er bannað í mínum bókum þegar kemur að tísku eða klæðaburði en ég er alltaf að reyna að gera betur og kaupa meira second hand og vintage eða flíkur sem endast tímans tönn.
Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Útskriftarkjóllinn minn frá Retrofete, stuttur neon gulur pallíettukjóll. Mér hefur sjaldan liðið eins og einn kjóll væri jafn mikið ég.
Það sakar ekki hvað mér leið fabjulös þegar ég labbaði yfir sviðið í hörpunni að taka á móti þegar bachelor gráðunni minni í neongulum glimmerkjól.
Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Alltaf að vera samkvæmur sjálfum sér og láta ekki aðra segja þér hvernig þú átt að vera. Klæddu þig eins og þér finnst flott og þér líður best, því þá ertu alltaf gordjöss!