Íslenski boltinn

„Veit ekkert hvenær ég brotnaði“

Sindri Sverrisson skrifar
Adolf Daði Birgisson hefur fagnað sínum fyrstu þremur mörkum í efstu deild fyrir Stjörnuna í sumar.
Adolf Daði Birgisson hefur fagnað sínum fyrstu þremur mörkum í efstu deild fyrir Stjörnuna í sumar. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

„Þetta er mikill skellur en um leið er þetta bara partur af þessu,“ segir Adolf Daði Birgisson, einn af ungu leikmönnum sem slegið hafa gegn í liði Stjörnunnar í Bestu deildinni í sumar. Tímabilinu er lokið hjá honum.

Adolf Daði spilaði síðast með Stjörnunni gegn Breiðabliki 7. ágúst en spilar ekki fleiri leiki í ár vegna álagsbrots í ökkla. Ekki er ljóst hvenær beinið brotnaði en sennilega gerðist það áður en Adolf spilaði gegn Blikum:

„Ég býst við því en er svo sem ekkert alveg viss. Ég var alla vega búinn að vera aumur í ökklanum. Ég veit ekkert hvenær ég brotnaði en ég var farinn að finna fyrir þessu í lok júlí,“ segir Adolf Daði í samtali við Vísi.

„Þetta er álagsbrot í ökklanum. Ég var búinn að finna fyrir þessu frá því í Víkingsleiknum [30. júlí] og spilaði Blikaleikinn. Eftir þann leik gat ég varla stigið í fótinn og úr því að ég var ekkert að jafna mig þá fór ég í myndatöku þar sem brotið kom í ljós,“ segir Adolf Daði sem eins og fyrr segir spilar ekki meira í haust.

„Ég er bara frá út tímabilið. Núna snýst þetta um að einbeita sér að því að halda sér í góðu standi og undirbúa mig sem best fyrir næsta tímabil.“

Þessi 18 ára kantmaður getur engu að síður litið til baka á tímabilið í ár með bros á vör því hann hefur stimplað sig rækilega inn í Bestu deildina og meðal annars skorað sín fyrstu þrjú mörk í efstu deild.

„Það er geggjað að koma svona inn og búa sér smávegis til sæti í liðinu, kynnast liðsfélögunum betur og deildinni í heild. Þetta var auðvitað upp og niður hvað frammistöður varðar en heilt yfir er ég bara ánægður,“ segir Adolf Daði með báða fætur á jörðinni, þó annar sé brotinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×