Tvöfalt fleiri mál voru skráð hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á Menningarnótt en kvöldið á undan. Þó nokkur alvarleg atvik komu upp. Ásgeir Þór Ásgeirsson aðstoðarlögreglustjóri segir alvarlegasta málið hafa verið hnífstunguárás á Lækjartorgi þar sem tveir slösuðust.
„Það eru rauð flögg hjá okkur þegar við sjáum helgi eftir helgi átök sem enda með því að eggvopnum er beitt. Við erum ekki sátt við það og ekki heldur samfélagið,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson aðstoðarlögreglustjóri hjá LRH.
Ásgeir segir enn fremur mikla mildi að ekki hafi orðið stórslys í miðbænum vegna ölvunaraksturs skömmu eftir flugeldasýninguna á Menningarnótt.
„Við fengum tilkynningar að ölvaðir ökumenn væru að keyra um eftir flugeldasýninguna þar sem áttu aðeins að vera gangandi vegfarendur. Annar þeirra ók utan í mann á rafhlaupahjóli við Þjóðleikhúsið á Hverfisgötu þar sem var fyrir gríðarlegur mannfjöldi. Við náðum honum svo á Sæbraut. Hinn keyrði út Lindargötu og að Lækjargötu þar sem hann náðist mjög nálægt stóra sviðinu. Þá var hann búinn að keyra á tvö bíla. Þar var líka mikill mannfjöldi á leið heim eftir tónleika og flugeldasýningu. Það er í raun mesta mildi að ekki hafi farið ver,“ segir Ásgeir.
Ökumennirnir voru látnir gista fangageymslur.
Þá náðist hópárás á mynd á Austurvelli þar sem sést þegar hópur fólks ræðst á ungan mann og lætur höggin dynja á höfði hans. Samkvæmt heimildum fréttastofu er líðan mannsins eftir atvikum en hann er meðal annars kinnbeinsbrotinn.
Mikilvægt að bregðast við
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur áhyggjur af þróun mála.
„Ég hef áhyggjur af fjölgun hnífamála í miðborg Reykjavíkur. Eftir Menningarnótt förum við alltaf yfir málin ásamt lögreglu og öðrum skipuleggjendum og þetta verður rætt á næsta fundi. Það er mikilvægt að fylgjast með svona þróun og grípa inn í.