Í tilkynningu segir að þar verði móttaka á jarðvegi, steinefnum og óvirkum úrgangi frá byggingariðnaði. Með þessu verði mögulegt að hafa til taks flokkaðan jarðveg til endurnýtingar í byggingarstarfsemi, gatnagerð og aðra landfyllingu.
„Gríðarlegt magn margvíslegs úrgangs fylgir byggingarframkvæmdum og mikil áskorun að gera betur, endurnýta efni og draga úr sóun.
Meira en 530 þúsund tonn falla til árlega af byggingarúrgangi á Íslandi og hefur lítið af því efni verið endurnýtt. Með þessu yrði stórt skref stigið í endurnýtingu þessara efna og innleiðingu hringrásarhagkerfis á Íslandi.
Þann 1. janúar taka gildi nýjar reglur um sérstaka söfnun byggingarúrgangs. Þá verður meðal annars skylt að flokka rekstrarúrgang og byggingar- og niðurrifsúrgang sérstaklega og sveitarfélögum ber að tryggja aðstöðu til að taka við þessum úrgangi flokkuðum. SORPA vill með þessu stuðla að því að þessum lögum sé fylgt og styðja við uppbyggingu endurvinnsluiðnaðar og innleiðingu hringrásarhagkerfis á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.