Viðskipti innlent

Bára Mjöll nýr með­eig­andi hjá Lang­brók

Atli Ísleifsson skrifar
Bára Mjöll Þórðardóttir hefur að undanförnu stafað við rekstrar- og markaðsráðgjöf, en var þar áður forstöðumaður markaðs- og samskiptamála hjá Vodafone/Stöð 2 (Sýn hf.) og upplýsingafulltrúi hjá Bláa lóninu.
Bára Mjöll Þórðardóttir hefur að undanförnu stafað við rekstrar- og markaðsráðgjöf, en var þar áður forstöðumaður markaðs- og samskiptamála hjá Vodafone/Stöð 2 (Sýn hf.) og upplýsingafulltrúi hjá Bláa lóninu. Aðsend

Bára Mjöll Þórðardóttir hefur gengið til liðs við ráðgjafafyrirtækið Langbrók sem meðeigandi.

Í tilkynningu segir að Bára Mjöll hafi víðamikla reynslu á sviði viðskiptaþróunar, markaðs- og samskiptamála. Síðastliðin ár hafi hún sinnt rekstrar- og markaðsráðgjöf þar sem hún hafi unnið með fyrirtækjum að mörkun, viðskiptaþróun og endurskipulagningu. 

„Áður var Bára Mjöll forstöðumaður markaðs- og samskiptamála hjá Vodafone/Stöð 2 (Sýn hf.) og upplýsingafulltrúi hjá Bláa lóninu. Bára Mjöll starfaði í fjármálageiranum um árabil, lengst af á samskiptasviði Arion banka en þar kom hún meðal annars að stefnumótun í samfélagslegri ábyrgð. 

Bára Mjöll er með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík, ásamt löggildingu í verðbréfamiðlun. Hún lagði auk þess stund á M.Sc. nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og stundar nú diplómanám á meistarastigi í jákvæðri sálfræði við Háskóla Íslands. Bára Mjöll hefur sinnt góðgerðarmálum til fjölda ára, hún situr í stjórn Lífs styrktarfélags og er ein af stofnendum góðgerðarfélagsins Lífskrafts.

Áherslur Langbrókar eru á ráðgjöf á sviði samfélagsábyrgðar, almannatengsla, markaðsmála og breytingastjórnunar. Ráðgjöfin byggir á heildrænni stefnumörkun þar sem tækifæri fyrirtækja eru kortlögð með samfélagsábyrgð og sjálfbærni að leiðarljósi með það að markmiði að efla samkeppnishæfni fyrirtækja. Langbrók vinnur jafnframt með stjórnendum fyrirtækja í stefnumörkun og innleiðingu samfélagsábyrgðar og samfélagsskýrslugerðar þar sem stuðst er við alþjóðamælikvarða, UN Global Compact, Global Reporting Initiative (GRI), ESG/UFS og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (SDG),“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×