Sport

Án stiga til Finn­lands eftir matar­eitrunar­leikinn

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum 3-0 en heldur nú til Finnlands.
Íslenska landsliðið hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum 3-0 en heldur nú til Finnlands. BLÍ

Íslenska kvennalandsliðið í blaki hefur nú tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í undankeppni EM. Liðið ferðast til Finnlands í dag og lýkur svo undankeppninni á þremur heimaleikjum.

Eftir 3-0 tap í Tékklandi í fyrsta leik mætti íslenska liðið Svartfjallalandi í gær, í uppgjöri tveggja liða sem mæst hafa á Smáþjóðaleikunum. Svartfellingar unnu 3-0 sigur.

Eins og fjallað var um á Vísi í gær var hins vegar við litlu að búast af íslenska liðinu í gær þar sem að stór hluti liðsins veiktist af matareitrun, eftir að hafa verið veitt sýkt vatn á hótelinu sem það dvaldi á.

Svartfellingar unnu fyrstu hrinuna í gær af miklu öryggi, 25-7, en meiri spenna var í næstu tveimur sem þeir unnu þó 25-18 og 25-17.

Thelma Dögg Grétarsdóttir var stigahæst Íslands líkt og gegn Tékklandi, með 13 sti,g og Tinna Rut Þórarinsdóttir skoraði 6.

Næsti leikur Íslands er í Finnlandi á laugardag en Finnar töpuðu 3-0 á heimavelli gegn Tékkum í gær.

Ísland lýkur svo undankeppninni á þremur heimaleikjum í Digranesi dagana 3., 7. og 11. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×