Sigruðu Love Island
Davide og Ekin-Su kynntust í Love Island þáttunum í sumar og stóðu uppi sem sigurvegarar. Milljónir fylgdust með stormasömu sambandi þeirra, sem endaði vel og þau voru orðin ástfangin upp fyrir haus. Sjarmatröllin náðu að heilla áhorfendur upp úr skónum og játuðu ást sína fyrir hvort öðru á nokkrum tungumálum.
Myndir og myndbönd af þeim að yfirgefa svæðið saman
Í frétt The Sun kom fram að stúlkurnar í myndbandinu frá því á laugardagskvöld séu íslenskar, þær Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir og Aníta Gunnarsdóttir. Myndirnar sem náðust af þeim yfirgefa svæðið saman, ásamt öðrum manni sem er talinn vera vinur Davide, hafa vakið mikla athygli.
Matthildur birti einnig myndefni af Davide fyrr um kvöldið á Instagram en þau voru samankomin í O2 höllinni í London að horfa á bardaga KSI.
Hittu hann á bardaganum
Það eina sem myndbandið sýnir er að stúlkurnar deildu með honum leigubíl en breska pressan virðist vera að fylgjast grannt með kappanum þessa dagana. Ekin-Su og Davide eiga stóran aðdáendahóp og virðist myndbandið hafa skapað heitar umræður um hegðun Davide. Netverjar hafa meðal annars lagt fram spurningar um kvöldið á Instagram miðlum stúlknanna.
„Við hittum hann bara á þessum bardaga,“ sagði Matthildur í samtali við Lífið í dag en vildi ekki tjá sig meira um málið á þessum tímapunkti. Hún vildi ekki gefa upp hvert leigubílaförinni hafi verið heitið.