Einar Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður borgarráðs, var gestur í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag þar sem hann ræddi um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Samningur var gerður milli ríkis og borgar um flutning vallarins í Hvassahraun árið 2019 en málið er enn í ferli.
Síðan samningurinn var undirritaður hafa nokkrar jarðskjálftahrinur riðið yfir Reykjanesið og tvisvar sinnum gosið á svæðinu. Því er flugvöllur í Hvassahrauni ekki enn góður kostur.
„Starfshópurinn er enn að störfum og þó að við sjáum að við rífumst ekki við eldfjöll er rétt að bíða eftir niðurstöðum hópsins og taka svo bara upplýsta ákvörðun á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir. En það er vissulega hárrétt að líkurnar á því að þarna verði flugvöllur eru mun minni en áður,“ segir Einar.
Einhverjir hafa kvartað yfir því að verið sé að þrengja að flugvellinum með nýrri byggð í Skerjafirði og í nágrenninu. Búið er að skipa í svokallaðan spretthóp vegna málsins en hópurinn mun skila niðurstöðum þann 1. október næstkomandi.
„Það er samningur um að það megi ekki skerða rekstraröryggi flugvallarins. Við vinnum þetta málefnalega á grundvelli upplýsinga og ég er bjartsýnn á að það náist niðurstaða í málið. Það er gríðarlega mikilvægt, og það vita Sjálfstæðismenn, að það þarf að hraða alla uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í höfuðborginni,“ segir Einar en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt uppbygginguna.
Einar segir borgarfulltrúa meirihlutans vera í þessu til þess að leysa vandamál, ekki til þess að búa þau til. En til þess að leysa þau þurfi allt að vinnast á grundvelli gagna og skynsemi.
Skyldi Hvassahraun vera útilokað sem fýsilegur staður fyrir nýjan flugvöll þarf að ráðast aftur í að skoða hvaða staðir henta best fyrir flugvöll. Þegar Hvassahraun var valið voru tveir aðrir staðir taldir álitlegir, Löngusker og Hólmsheiði.
„Það hefur verið deilt um þetta lengi og ég held það sé mikilvægt að vinna þetta áfram á grundvelli samninga og sameiginlegs skilnings á því að það þarf að vera hægt að tryggja sjúkraflug og innanlandsflug svo bæði landsbyggð og höfuðborg njóti góðs af. Vera ekki með þetta í þessum átakafarvegi, það er bara flókið að byggja flugvöll og finna handa honum stað en við verðum að gera það. Og þessi vinna heldur áfram,“ segir Einar.