Innlent

Lögreglumenn fóru að bænum í gærkvöldi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mynd sem Steinunn Árnadóttir tók af einu hrossanna.
Mynd sem Steinunn Árnadóttir tók af einu hrossanna. Steinunn Árnadóttir

Lögregla á Vesturlandi segir enga kæru hafa borist vegna máls hrossaræktenda, sem sakaðir hafa verið um illa meðferð á skepnum sínum, í nágrenni Borgarnes. Málið hafi hins vegar verið tilkynnt til lögreglu í ágúst og í gærkvöldi hafi lögreglumenn sinnt útkalli að bænum. 

Greint var frá málinu á Vísí í gær en Steinunn Árnadóttir íbúi í Borgarnesi segir nærsveitunga sína lamaða vegna illrar meðferðar á hestum í nærsveitinni. Hún kveðst ósátt við yfirvöld að grípa ekki inn í þrátt fyrir endurteknar ábendingar. 

Í gær tjáði hún svo fréttastofu að eigendur væru að flytja hesta sína á annan stað og lögregla væri komin á staðinn. 

Ræddu við eigendur hrossanna

Ásmundur Kr. Ásmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu á Vesturlandi staðfestir að hringt hafi verið í neyðarlínu klukkan 22:33 í gærkvöldi og lögreglu tilkynnt um flutninga á hestum við bæinn. Lögreglumenn hafi farið á staðinn og rætt við tilkynnanda. Þeir hafi svo farið á eftir fólkinu sem staðið hafi í hrossaflutningunum, verið að flytja eigin hesta í eitthvert tún, og rætt við það. Málið hafi verið bókað en lögregla ekkert aðhafst, enda ekki ólöglegt að flytja hesta. 

Lögregla sé þó meðvituð um málið. Ásmundur segir að dýrverndarsamtök hafi tilkynnt um illa meðferð á hrossum á bænum í ágúst. Þá hafi málið verið sett í ferli; Matvælastofnun (MAST) tilkynnt um það og dýraeftirlitsmaður sendur á staðinn. Málið sé þannig á forræði MAST og engin kæra vegna þess borist lögreglu á Vesturlandi. 

Sigríður Björnsdóttir dýralæknir hrossasjúkdóma hjá MAST sagði í samtali við Vísi í gær að stofnunin hefði stjórn á málinu, sem sé þó á viðkvæmu stigi. Óljóst væri hverjar lyktir málsins yrðu.


Tengdar fréttir

„Hestamenn í Borgarnesi eru allir lamaðir yfir þessu“

Íbúi í Borgarnesi segir nærsveitunga sína lamaða vegna illrar meðferðar á hestum í nærsveitinni. Hún er ósátt við yfirvöld að grípa ekki inn í þrátt fyrir endurteknar ábendingar. Dýralæknir hrossasjúkdóma hjá MAST segir málið í ferli hjá stofnuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×