Fótbolti

Real Madríd talið lík­legast til að vinna Meistara­deild Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Real fagna í úrslitaleiknum síðasta vor.
Leikmenn Real fagna í úrslitaleiknum síðasta vor. EPA-EFE/YOAN VALAT

Tölfræðiveitan Gracenote telur líklegast að Real Madríd vinni Meistaradeild Evrópu í fótbolta karla á þessari leiktíð og verji þar með titil sinn. Samkvæmt útreikningum veitunnar eru þrjú lið sem bera höfuð og herðar yfir önnur lið.

Real Madríd er talið líklegast til árangurs en það eru 21 prósent líkur á að liðið vinni og verji þar með titil sinn. Fari svo að spáin gangi eftir yrði það fimmtándi sigur Real í keppninni en félagið er það sigursælasta í sögu Meistaradeildar Evrópu, og forvera hennar. Það kemur því lítið á óvart að liðinu sé spáð sigri.

Þar á eftir koma Englandsmeistarar Manchester City en það eru 20 prósent líkur á að Pep Guardiola stýri liðinu loks til sigurs í deild þeirra bestu. Þá eru 19 prósent líkur á að Liverpool vinni en liðið fór alla leið í úrslit á síðustu leiktíð þar sem það beið lægri hlut gegn Real. Þýskalandsmeistarar Bayern München eiga svo 10 prósent möguleika á sigri. 

Gracenote hefur einnig reiknað út hvaða lið eru líklegust til að komast upp úr riðlum sínum. Það ætti ekki að koma á óvart að það eru yfir 90 prósent líkur á að Real, Man City og Liverpool fari upp úr riðlum sínum.

Liverpool leikur í A-riðli ásamt Ajax, Napoli og Rangers. Chelsea er í E-riðli með AC Milan, Salzburg og Dinamo Zagreb. Real Madríd er í F-riðli með Leipzig, Shakhtar Donetsk og Celtic. Meistaradeild Evrópu hefst annað kvöld og verða þrír leikir sýndir beint á Stöð 2 Sport 2 og 3.

Dinamo Zagreb - Chelsea, klukkan 16.35 á Stöð 2 Sport 3

París Saint-Germain - Juventus, klukkan 18.50 á Stöð 2 Sport 2

Celtic - Real Madríd, klukkan 18.50 á Stöð 2 Sport 3


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×