Viðskipti innlent

Sigríður Júlía nýr kennslustjóri Lýðskólans á Flateyri

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sigríður hefur verið ráðin kennslustjóri Lýðskólans á Flateyri.
Sigríður hefur verið ráðin kennslustjóri Lýðskólans á Flateyri. Lýðskólinn á Flateyri

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir hefur verið ráðin kennslustjóri Lýðskólans á Flateyri en hún er jafnframt forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum en þar segir að Sigríður hafi víðtæka reynslu af stjórnun, kennslu og fræðastörfum. Hún hafi frá árinu 2004 unnið að umhverfismálum og skógrækt, fyrst sem verkefnastjóri hjá Vesturlandsskógum og síðan sem héraðsfulltrúi Landgræðslu ríkisins á Vesturlandi og Vestfjörðum og framkvæmdastjóri Vesturlandsskóga en frá árinu 2016 sem sviðsstjóri hjá Skógræktinni. 

Þar hafi hún stýrt ráðgjafaþjónustu stofnunarinnar, séð um þjóðskóga og skógrækt á lögbýlum í samstarfi við skógarbændur. Sigríður hafi setið í framkvæmdaráði Skógræktarinnar frá stofnun hennar árið 2016. 

Sigríður hefur þá kennt við Landbúnaðarháskóla Íslands, bæði í bændadeild og á háskólastigi. Hún hefur einnig haldið erindi á fjölmörgum fundum, málþingum og ráðstefnum í gegnum tíðina auk námskeiðahalds á sviði umhverfismála og skógræktar. 

Sigríður er með mastersgráðu í skógfræði frá norska lífvísindaháskólanum að Ási í Noregi, sem hún fékk árið 2013, og BS gráðu í landnýtingu frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún hefur skrifað fjölda greina í fagtímarit, bæði erlend og innlend á sínu fræðasviði. Hún stundar nú meistaranám í áfallastjórnun við Háskólann á Bifröst. 

Lýðskólinn á Flateyri býður upp á nám á tveimur brautum þar sem önnur leggur áherslu á listir og sköpun en hin á útivist, umhverfi og sjálfbærni. Á hverju ári stunda um þrjátíu nemendur nám við skólann sem nú er að byggja nýja nemendagarða á Flateyri en skortur er á íbúðarhúsnæði fyrir nemendur sem hefur hamlað inntöku í skólann. Skólinn verður settur næstkomandi laugardag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×