Söngvarinn segir í tilkynningu að hann hafi ákveðið að hefja tónleikaferðalag sitt, Justice, á ný eftir að hafa þurft að taka hlé vegna Ramsey-Hunt taugasjúkdómsins. Eftir að hafa fengið sjúkdóminn lamaðist Bieber í andliti öðru megin tímabundið.
Hann segir það hafa tekið mikið á sig að halda sex tónleika á Evrópulegg tónleikaferðalagsins. Um helgina hafi hann svo haldið tónleika í Ríó í Brasilíu og lagt sig allan fram við að skemmta Brasilíumönnum.
„Eftir að hafa stigið af sviðinu tók ofsaþreytan yfir mig. Ég gerði mér grein fyrir því að ég þyrfti að setja heilsuna í fyrsta sæti. Þess vegna ætla ég að taka mér leyfi frá tónleikaferðalaginu að svo stöddu. Það verður í lagi með mig en ég þarf tíma til að hvíla og jafna mig,“ segir hann.
Dægurmiðilinn TMZ hefur eftir heimildamanni sínum að helsta ástæða þess að Bieber hafi ákveðið að taka sér hlé frá ferðalaginu sé andleg heilsa hans. Hann hafi átt erfitt andlega undanfarin ár.
Í frétt TMZ segir jafnframt að aum sjötíu tónleikar hafi verið á áætlun Justice tónleikaferðalagsins og að óljóst sé með öllu hvenær þeir munu vera haldnir.