Erlent

Far­þegi skemmti­ferða­skips lést eftir há­karla­á­rás

Bjarki Sigurðsson skrifar
Nautháfar eru ekki með góða sjón og treysta á lyktarskyn við veiðar.
Nautháfar eru ekki með góða sjón og treysta á lyktarskyn við veiðar. Getty

Bandarísk kona sem var snorkla við strendur Bahamaeyja lést í gær eftir að hafa orðið fyrir hákarlaárás. Fjölskylda konunnar varð vitni að árásinni.

Konan var stödd við Grænarif rétt hjá Nassau höfuðborg Bahamaeyja þegar atvikið átti sér stað. Hún var í ferð um Karíbahafið ásamt fjölskyldu sinni á skemmtiferðaskipi.

Grænarif er vinsæll ferðamannastaður en samkvæmt lögreglunni á Bahamaeyjum bar nautháfur ábyrgð á árásinni. Nautháfar éta nánast hvað sem er en þeir eru með afar sterkt lyktarskyn og slæma sjón.

Fjölskylda konunnar varð vitni að árásinni og náði að koma henni á land. Áverkar hennar voru þó of alvarlegir og lést hún skömmu síðar. Þetta er fyrsta andlátið af völdum hákarls á svæðinu síðan árið 2019 en þá réðst hákarl á 21 árs gamla konu nærri Rósaeyju.

Hákarlaárásir eru ekki algengar á Bahamaeyjum en samkvæmt BBC hafa einungis 32 árásir verið tilkynntar síðan 1749.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×