Nokkuð hefur verið fjallað um texta sem stóð á vefsíðu fyrirtækis hans, Lakrids by Bülow, þar sem því virtist haldið fram að Johan hefði fengið hugmyndina að súkkulaðihúðum lakkrís á því herrans ári 2009.
Málið hefur vakið mikla athygli, enda mörgum Íslendingum ljóst að sú hugmynd að súkkulaðihúða lakkrís kom ekki fyrst fram á sjónarsviðið á þarsíðasta áratug. Raunar fór málið svo hátt að sjálfur forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, steig fram á sjónarsviðið til að taka af öll tvímæli að um væri að ræða íslenska hefð.
Það gerði forsetinn á Twitter, en nú hefur Johan Bülow svarað Guðna, í stuttu myndbandi sem tekið er upp í verslun Lakrids by Bülow á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn.
„Ég vil tilkynna að við eignum okkur ekki heiðurinn af súkkulaðihúðuðum lakkrís. Og til að gæta allrar hreinskilni þá var ég undir miklum áhrifum íslensks sælgætis í upphafi. Ég skil að óheppilega orðuð setning á vefsíðu okkar hafi verið misvísandi. Ísland, kærar þakkir fyrir að vera innblástur í okkar verkefni, sem er að fá heiminn til að elska lakkrís, og til forsetans: Ef þú kemur til Kaupmannahafnar þá er þér meira en velkomið að koma í verksmiðjuna okkar og smakka þar allar þær mismunandi samsetningar sem við búum til. Hafið það gott, bless, bless!“ sagði Bülow í myndbandskveðjunni.
Þar með er orðið morgunljóst að Íslendingar geta hrósað sigri í deilunni um montréttinn af súkkulaðihúðuðum lakkrís. Í það minnsta virðist liggja fyrir að ef einhver svo mikið sem reynir að halda því fram að hugmyndin sé ekki frá Íslendingum komin, muni þjóðhöfðinginn blanda sér í málið.