Í munnlegri skýrslu Rosemary DiCarlo aðstoðarframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til öryggisráðs samtakanna í gær kom fram að rúmlega 5.700 óbreyttir borgarar hefðu fallið í innrás Rússa í Úkraínu, þeirra á meðal 372 börn. Um 8.200 hefðu særst, þeirra á meðal 635 börn.
Þá hefðu 6,9 milljónir íbúa í austur- og suðurhluta landsins hrakist frá heimilum sínum vegna innrásarinnar. Fjöldi flóttafólks til annarra landa væri kominn yfir sjö milljónir og hefði fjölgað um 300 þúsund á hálfum mánuði.

Fregnir hafa borist af gagnsókn úkraínskra hersveita undanfarna daga í Kerson héraði í suðri og nú síðast í Kharkiv héraði í norðaustur hluta landsins. Volodymyr Zelenskyy forseti landsins sagði í ávarpi sínu til þjóðarinnar í gærkvöldi að góðar fréttir hefðu borist af árangri hersveita í Kharkiv.
„Nú er ekki tímabært að greina nákvæmlega frá því hvar fáni Úkraínu hefur verið dreginn að húni á ný. En það er við hæfi að að koma þakklæti á framfæri til hermanna í 25. flugsveit okkar fyrir það hughrekki sem þeir hafa sýnt í þessum aðgerðum,“ sagði forsetinn.
Innrás Rússa hefur reynst þeim dýrkeypt. Talið er að allt að 50 þúsund rússneskir hermenn hafi fallið og særst og gífurlegum fjölda hergagna þeirra hefur verið grandað. Um tvö þúsund skriðdrekum og yfir tvö hundruð flugvélum til að mynda.

En Rússar hafa líka valdið gífurlegu eigna- og manntjóni í Úkraínu eins og fram kom hér að framan. Linda Thomas-Greenfield fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum sagði á fundi öryggisráðsins í gær að Rússar hefðu einnig rænt og flutt fjölda Úkraínumanna til Rússlands.

„Áætlanir frá fjölmörgum heimildum, meðal annars innan rússnesku stjórnarinnar, gefa til kynna að rússnesk yfirvöld hafi yfirheyrt, fangelsað og flutt með valdi á bilinu 900 þúsund til 1,6 milljónir íbúa fráheimilum sínum í Úkraínu til Rússlands, oft á tíðum langt austur eftir í Rússlandi,“ sagði Thomas-Greefield.
Heimildir væru fyrir því að þessum mannránum og flutningum væri stjórnað af embættismönnum innan forsetaembættis Rússlands.

Þá hefðu þessir sömu embættismenn komið listum með nöfnum úkraínskra borgara á framfæri viðhersveitir sínar sem eigi aðhandtaka og flytja fólkið til Rússlands. Fjöldi barna væri í þessum hópi.