Innlent

Hljóp upp á borð, sparkaði í hluti og gekk ber­serks­gang

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti ýmsum málum í gærkvöldi og í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti ýmsum málum í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögregla handtók karlmann á tólfta tímanum í gærkvöldi en sá gekk berserksgang og var í mjög annarlegu ástandi fyrir utan veitingastað í miðborg Reykjavíkur.

Samkvæmt dagbókarfærslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hljóp maðurinn upp á borð, sparkaði í ýmsa muni og var með ógnandi tilburði við gangandi vegfarendur. Lögregla handtók manninn og vistaði í fangaklefa til að tryggja öryggi vegfarenda en maðurinn var ekki viðræðuhæfur, hótaði lögreglumönnum og var með ógnandi tilburði að sögn lögreglu.

Þá var annar í annarlegu ástandi sem gekk milli glugga á ónefndri ríkisstofnun í miðborginni um miðnætti, barði á rúður og truflaði starfsemi innandyra. Lögreglan vísaði manninum á brott.

Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna slagsmála á skemmtistað í miðborginni klukkan fjögur í nótt en dyraverðir vísuðu manni út, sem ráðist hafði á gest inni á staðnum. Maðurinn neitaði að fara að fyrirmælum, var viðskotaillur og ósamvinnuþýður eins og segir í dagbókarfærslu lögreglunnar. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×