Sænska ríkissjónvarpið segir að um klukkan fimm í morgun að íslenskum tíma hafi verið búið að telja atkvæðin í 6.243 umdæmum af samtals 6.578, sem samsvarar um 95 prósent atkvæða.
Líkt og búist var við er Jafnaðarmannaflokkurinn sem fyrr stærstur og hefur fengið um 30,5 prósent atkvæða, rúmum tveimur prósentum meira en í þingkosningunum 2018. Svíþjóðardemókratar eru af flestum taldir vera stóru sigurvegarar kosninganna, en þeir fá 20,6 prósent atkvæða og verða næststærsti flokkurinn á þingi, stærri en hægriflokkurinn Moderaterna, sem eru nú með 19,1 prósent atkvæða.
Ljóst má vera að allir þeir átta flokkar sem áttu sæti á þingi á liðnu kjörtímabili hafa fengið nægjanlegt fylgi, það er meira en fjögur prósent atkvæða, til að vera áfram með fulltrúa á þingi.
Flestir flokkar með minna fylgi en 2018
Miðflokkurinn fékk samkvæmt bráðabirgðatölum 6,7 prósent atkvæða, Vinstriflokkurinn 6,6 prósent, Kristilegir demókratar 5,4 prósent, Græningjar 5,0 prósent og Frjálslyndir 4,6 prósent. Aðrir flokkar ná svo samtals 1,5 prósent atkvæða. Allir flokkarnir, að Græningjum frátöldum, missa fylgi frá síðustu kosningum.
Samkvæmt bráðabirgðatölum fær hægri blokkin – Moderaterna, Svíþjóðardemókratar, Kristilegir demókratar og Frjálslyndir – 175 þingsæti, á meðan vinstri blokkin – Jafnaðarmenn, Miðflokkurinn, Græningjar og Vinstriflokkurinn – 174 þingsæti. 47 þúsund atkvæði skilja nú blokkirnar að þegar búið er að telja 95 prósent atkvæða.

Vill ekki fagna of snemma
Ulf Kristersson, formaður Moderaterna, segist ekki vilja fagna of snemma, enda eigi enn eftir að telja öll atkvæði og mjótt er á munum. Hann segist þó vilja gera allt sem í sínu valdi stendur til að mynda nýja ríkisstjórn. Slíkt gæti þó reynst þrautinni þyngri þar sem Frjálslyndir hafa lítinn áhuga á að mynda stjórn með Svíþjóðardemókrötum.
Þrátt fyrir að bæta við sig fylgi kann svo að fara að Jafnaðarmenn missi nú völd í landinu, en Magdalena Andersson, forsætisráðherra og formaður Jafnaðarmanna, segist stolt af kosningabaráttu flokksins og að hún vilji bíða og sjá hver niðurstaðan verður þegar búið sé að telja öll atkvæði.